Helförin: Of fáir töluðu, of fáir hlustuðu, enn færri sýndu samstöðu

0
788
Alþjóðlegur minningardagur um helförina
Auschwitz. Alþjóðlegur minningardagur um helförina

27.janúar ár hvert er þess minnst að þá frelsaði Rauði herinn útrýmingarbúðirnar Auschwitz-Birkenau úr höndum nasista, og batt enda á Helförina. Á alþjóðlegum degi til minningar um fórnarlömb helfararinnar er minnst 6 milljóna gyðinga sem létust í Helförinni, Róma og Sinti og óteljandi annara fórnarlamba fordæmislauss hryllings og grimmdar.

„Helförin skilgreindi Sameinuðu þjóðirnar,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi á alþjóðlega minningardeginum. „Nafn samtakanna ber heiti bandalagsins sem stofnað var til höfuðs stjórn nasista og bandamanna þeirra.“

Guterres varaði við því að gyðingahatur færðist í aukanna að nýju. Hann fagnaði að í síðustu viku samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun þar sem öll aðildarríkin fordæmdu einum rómi afneitun Helfararinnar.

„Sameinuðu þjóðunum ber ætíð að vera í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn gyðingahatri og hvers kyns trúarlegu ofstæki og kynþáttahatri. Í dag horfum við upp á ógnvekjandi uppgang útlendingahaturs og hatursorðræðu. Gyðingahatur, eitt elsta og þrálátasta form fordóma, fer í vöxt.“

Ekki óhjákvæmilegt

Guterres minnir á að hægt hefði verið að koma í veg fyrir Helförina.

„Of fáir töluðu, of fáir hlustuðu, enn færri sýndu samstöðu.“

„Þögn andspænis hatri felur í sér meðvirkni. Við skulum skuldbinda okkur til þess að virða ekki þjáningar annara að vettugi og gleyma aldrei því sem gerðist og láta aðra ekki gleyma því heldur.“

Sjá nánar hér og hér.