HIV: Ungt fólk stærsti áhættuhópurinn

0
453

 UNAIDS1

4.ágúst 2014. Dánartíðni af völdum alnæmis meðal ungmenna hefur ekki minnkað eins og í öllum öðrum aldursflokkum.

Síðustu áratugi hafa orðið miklar framfarir í baráttunni gegn HIV/Alnæmi. Þökk sé nýjungum í læknavísindum er veiran ekki lengur dauðadómur heldur sýking sem hægt er að lifa góðu og löngu lífi með. Tölur UNAIDS benda til að dánartíðni hafi minnkað í öllum aldurshópum nema einum mikilvægum hópi: ungt fólk. Þvert á móti hefur dánartíðni aukist um 50% á síðastliðnum 7 árum. Í Afríku eru dauðsföll sem rekja má til HIV/Alnæmis á meðal helstu dánarorsaka hjá ungu fólki. Á heimsvísu eru það eingöngu umferðaróhöpp sem kosta fleiri lífið.

„Þetta er siðferðilegt óréttlæti,“ sagði Michel Sidibé, forstjóri UNAIDS við upphaf 20. Alþjóðlegu Alnæmisráðstefnunnar í Melbourne í Ástralíu nýverið. „Okkur ber að leggja til hliðar hræsni hins opinbera þegar kynlíf er annars vegar. Komum þessu í verk í minningu þeirra sem fórust á leið á þessa ráðstefnu um borð í flugi MH17 og í þágu þeirra milljóna sem lifa með HIV.“

Keren Dunaway Gonzalez, átján ára stúlka frá Hondúras var í hópi margra á ráðstefnunni sem talaði máli kynfræðslu sem höfðaði til ungs fólks. „Ég var að klára framhaldsskóla í Hondúras, án þess að hafa setið einn einasta tíma í kynfræðslu alla mína skólagöngu. Þegar í ljós kom að ég hafði smitast af HIV varð ég fyrir miklu einelti og útilokun. Það hefur ekki verið auðvelt að öðlast kjark til þess að segja frá HIV smitinu. Í dag rýf ég þögnina í þeirri von að aðrir á mínum aldri þurfi ekki að ganga í gegnum það sem ég hef þurft að gera.“

Talið er að í heiminum séu 5.4 milljónir ungmenna á aldrinum 10 til 24 ára smitaðar af HIV sem samsvarar öllum íbúafjölda Noregs. Ungmenni eru sá aldursflokkur sem er stærsti áhættuhópur í að smitast af HIV, meðal annars vegna skorts á upplýsingum og aðgangs að heilsugæslu.