Hjálpum Darfur, núna!! – – Eftir Kofi A. Annan’

0
552

15.maí 2006 

Friðarsamkomulagið sem ríkisstjórn Súdans og stærsta uppreisnarheyfingin í Darfur undirrituðu 5. maí felur í sér nýtt tækifæri fyrir umheiminn til að stilla til friðar í þessu stríðshrjáða héraði.  En við þurfum að bregðast snarlega við ef þetta tækifæri á ekki að renna okkur úr greipum.

Viðræðurnar sem leiddu til samkomulagsins voru langar og strangar. Margir eiga heiður skilinn fyrir að það náðist að minnsta kosti viss árangur

En nú er ekki tími til að hrósa sér fyrir góðan árangur og láta þar við sitja. Það er langt í frá að stillt hafi verið til friðar í Darfur. Þess er skemmst að minnast að þegar neyðarhjálparstjóri Sameinuðu þjóðanna heimsótti búðir fyrir uppflosnað fólk, brutust út óeirðir og túlkur fyrir Afríkusambandið var brytjaður niður og myrtur. Verkefnin eru ærin og engan tíma má missa.  

Í fyrsta lagi hafa nokkrir uppreisnarleiðtogar ekki enn undirritað samkomulagið.

Við verðum öll að reyna að sannfæra þá um að kjósa frið fram yfir ófrið í þágu þjóðar sinnar. Ef þesssi harmleikur heldur áfram vegna þess sem þeir hafa gert eða látið ógert, verður dómur sögunnar óvæginn. Þar næst verðum við að gera allt sem í okkar valid stendur til að þeir sem undirrituðu samkomulagið virði það í raun, þannig að íbúar Darfur geti þraukað næstu mánuði.  Til að svo megi verða þurfa þeir bæði á vernd og neyðaraðstoð að halda því þeir hafa verið flæmdur á brott frá heimilum sínum og ræktarlöndum og geta ekki séð sér farborða. Og ekki síður verður að vernda þá sem veita þeim aðstoð. Eins og er, er aðeins eitt afl á staðnum sem getur veitt einhvers konar vernd, Afríkusambandið. Þess vegna hlýtur að vera aðkallandi í fyrstu að styrkja það afl svo að það geti hafist handa við að hrinda samkomulaginu í framkvæmd og tryggt uppflosnuðu fólki vernd.

En þetta yrði aðeins millibilsástand. Umbreyta verður sveit Afríkusambandsins hið fyrsta í stóra og hreyfanlega sveit Sameinuðu þjóðanna, betur búna tækjum og með sterkara umboð.  Við stefnum að því að komast að samkomulagi við samstarfsaðila okkar í Afríkusambandinu um hverjar þarfir þess eru til að hrinda í framkvæmd, lykilatriðum í Abuja-samkomulaginu. Því næst verður haldin ráðstefna, hugsanlega í Brussel í byrjun júní þar sem ríki myndu ráða ráðum sínum og heita aðstoð.

En ég skora á veitendur aðstoðar að bíða ekki eftir ráðstefnunni. Þeir verða að vera rausnarlegir og hefjast strax handa. Við megum ekki missa einn einasta dag. 

Og ég skora á alla í Darfur að veita Afríkusambandinu liðsinni. Enginn ætti að standa fyrir eða líða árásir eins og þær sem gerðar voru í síðustu viku.

Það er ekkert síður mikilvægt að afla fjár til að standa straum af neyðaraðstoð.  Á þessari stundu ríkir í héraðinu mesta neyð af mannavöldum sem dæmi eru um í heiminum.  Án umfangsmikillar og tafarlausrar aðstoðar, geta hjálparstofnanir ekki sinnt störfum sínum og hundruð þúsunda manna munu deyja úr hungri, vannæringu og sjúkdómum. Á meðan verðum við að halda áfram að skipuleggja að sveitir Sameinuðu þjóðanna taki við hlutverki Afríkusambandsins eins og friðar og öryggisráðið sambandsins fór fram á 10. mars og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gaf leyfi til 24. mars.  Þetta er mikil áskorun á Sameinuðu þjóðirnar. En þetta er áskorun sem við tökum.

Og eftir að hafa samþykkt þetta, er ekki eftir neinu að bíða.

Það hefur verið ljóst frá upphafi að Sameinuðu þjóða sveit yrði að vera mun stærri en núverandi sveit Afríkusambandsins og þarf á skipulagsaðstoð þeirra ríkja sem eru fæ rum að veita hana.

Næsta skref er að senda sendinefnd til að meta þarfir í Darfur.  Sameinuðu þjóðirnar og Afríkusambandið munu kynna sér frá fyrstu hendi aðstæður á staðnum og ráðgast við allar fylkingar.

Engin friðargæslusveit nær árangri ef hún nýtur ekki stuðnings og samvinnu allra fylkinga á æðstu stöðum. Af þessum sökum hef ég skrifað Bashir forseta til að óska stuðnings hann við slíka könnunarsveit. Stuðningur hans er nauðsynlegur. 

Þangað til skora ég á alla aðila, og sérstaklega ríkisstjórnina að virða vopnahléið og sýna í verki að þeir ætli að standa við orð sín.  Og ég hvet alla nágranna Súdans að leggja fram alla þá aðstoð sem þeir geta hvort heldur sem er fjárhagslega eða pólitíska eða bæði. Að því er okkur varðar munu Sameinuðu þjóðirnar gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ljúka þessum hörmulega kafla í sögu súdönsku þjóðarinnar. Ég treysti á stuðning allra aðildarríkja, sérstaklega þeirra sem sitja í öryggisráðinu. 
 

Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.