Hungur sverfur að helmingi Sýrlendinga

0
250
Hungur Sýrland
Kona sem leitað hefur hælis í Binish í Idlib-héraði. Mynd: OCHA

Sýrland. Mannúðaraðstoð. Meðallaun í Sýrlandi duga fyrir um það bil fjórðungi matarkaupa fjölskyldu að mati Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Þetta sýnir að þörfin á mannúðaraðstoð hefur ekki minnkað nú þegar jarðskjálftar hafa bæst við borgarastríðið, sem staðið hefur yfir í tólf ár.

12.1 milljón manna eða rúmlega 50% íbúanna, glíma nú við fæðu-óöryggi og hungur blasir við 2.9 milljónum til viðbótar. Á sama tíma fer vannæring vaxandi og dæmum um vanþroska og hægan vöxt barna fer fjölgandi.

Hvenær er nóg komið?

Hungur Sýrland
Binish í Idlib-héraði. Mynd: OCHA

„Íbúarnir hafa orðið að þola sprengjuárásir, brottflutning, einangrun, þurrka, efnahagshrun og nú jarðskjálfta. Sýrlendingar eru einstaklega seigir en þetta er meira en þjóð getur ráðið við,“ segir Kenn Crossley framkvæmdastjóri WFP í Sýrlandi. „Hvað þarf til að heimurinn segi að nú sé nóg komið?“

Matarverð var þegar á uppleið þegar jarðskjálftarnir riðu yfir 6.febrúar. Matarvísitala, sem WFP tekur saman, hefur næstum tvöfaldast á síðustu 12 mánuðum. Samkvæmt henni hefur matarverð þrettánfaldast á þremur árum. Búist er við að hækkanir haldi áfram.

Sýrland var löngum sjálfu sér nægt hvað matvælaframleiðslu varðar. Nú er það hins vegar á meðal þeirra sex landa í heiminum þar sem fæðu-óöryggi er mest og reiðir sig að miklu leyti á innflutning matvæla. Eyðilegging innviða, hátt eldsneytisverð og þurrkar hafa orðið til þess að hveitiframleiðsla Sýrlands hefur dregist saman um 75%.

Milljónir fá ekki mat vegna fjárskorts

Hungur Sýrland
Binish í Idlib-héraði. Mynd: OCHA

WFP veiti 5.5 milljónum manna um allt landið matvælaastoð. Frá því jarðskjálftarnir urðu í norðurhluta landsins hefur WFP komið 1.7 milljón manna til hjálpar.

En fjárskortur hefur hamlað starfi WFP í Sýrlandi og hefur orðið að skera niður aðstoð, einmitt þegar fólk þarf mest á henni að halda. WFP þarf að minnsta kosti 450 milljónir Bandaríkjadala til að styðja við bakið á 5.5 milljónum landsmanna til loka árs 2023. Þar af er þörf á andvirði 150 milljóna dala til að veita 800 þúsund manns, sem orðið hafa fyrir áföllum af völdum jarðskjálftanna, aðstoð í sex mánuði.

WFP hefur orðið að draga saman seglin sökum fjárskorts með þeim afleiðingum að milljónir þurfandi manna verða af matvælaaðstoð.

„Fólk segir „Heimurinn hefur gleymt okkur“. Og það er áminning um að við verðum að gera meira,“ segir Corinne Fleischer, framkvæmdastjóri WFP í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og Austur-Ev rópu. „Við þurfum fjárveitingar til að útvega milljónum fjölskyldna mat, þar til Sýrlendingar geta brauðfætt sig sjálfir, að nýju.“