Jarðskjálftar: Sameinuðu þjóðirnar beita sér af fullum krafti

0
336
Jarðskjálftar. Tyrkland. Sýrland. Mannúðaraðstoð
Abdullah Al Shaghel, hjá WFP dreifir matvælum í Aleppo í Sýrlandi. Mynd: WFP/ © Al-Ihsan Charity

Jarðskjálftar. Tyrkland. Sýrland. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur komið mataraðstoð til 115 þúsunda bágstaddra Tyrkja og Sýrlendinga frá því jarðskjálftarnir mannskæðu urðu á mánudag. Tala látinna er komin yfir 20 þúsund og tugir þúsunda hafa orðið frosti og vetrarhörkum að bráð eftir að heimili þeirra hrundu.

„Þessa stundina eru matvæli ein brýnasta þörf þeirra þúsunda, sem hafa orðið fyrir skakkaföllum,“ segir Corinne Fleischer stjórnandi WFP í heimshlutanum. „Við reynum að koma mat bágstaddra eins fljótt og hægt er.“

Jarðskjálftar. Tyrkland. Sýrland. Mannúðaraðstoð
Aðstæður til björgunarstarf hafa verið mjög erfiðar í Idleb í Sýrlandi. Mynd: OCHA/Ali Haj Suleiman

Sameinuðu þjóðunum tókst í fyrsta skipti að komast með bílalest með hjálpargögn til Sýrlands í gær. Jarðskjálftarnir höfðu skorið á flutningaleiðir frá Tyrklandi. Geir Pedersen sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, hvatti til þess að gefnar væru tryggingar fyrir því að neyðaraðstoð innan Sýrlands yrði ekki notuð eða stöðvuð í „pólitískum tilgangi.“

„Óbreyttir borgarar þurfa á aðstoð að halda, sem getur bjargað mannslífum, hvorum megin við landamæri eða markalínur sem þeir búa,“ sagði Pedersen.

Sex flutningabílar með tjöld, teppi, hreinlætisvörur og fleira brutust til Bab al-Hawa á fimmtudag. Það er eina leyfilega landamærastöðin á mörkum Tyrklands og Sýrlands, sem leyfð fyrir flutninga aðstoðar, samkvæmt ákvörðun Örygisráðs Sameinuðu þjóðanna.

 Aðgerðir í Tyrklandi

Jarðskjálftar. Tyrkland. Sýrland. Mannúðaraðstoð
Eyðileggingin í Gaziantap í Tyrklandi. Mynd: Olga Borzenkova/IOM

Björgunarsveitir frá fjölmörgum ríkjum og alþjóðasamtökum eru á vettvangi og veita aðstoð til að bjarga mannslífum. Ástandið er enn grafalvarlegt og þúsunda er saknað, auk þeirra sem látið hafa lífið. Afar erfiðar aðstæður torvelda hjálparstarf. Mannúðarstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna leggja þunga áherslu á að brýn aðstoð berist öllum sem þurfa á henni að halda.

„Ég hvet alþjóðasamfélagið eindregið til að sýna íbúm Tyrklands og Sýrlands sams konar stuðning og rausn og þeir hafa sýnt flóttamönnum og fólki á vergangi vegna sýrlenska borgarastríðsins. Nú er tími til kominn að rísa upp í þágu Tyrkja og Sýrlendinga,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Framlög úr hamfarasjóði

Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar veitt 25 milljónum Bandaríkjala til mannúðaraðstoðar vegna jarðskjálftanna úr hamfarasjóði sínum (Central Emergency Response Fund (CERF). Brýn þörf er á auknum framlögum sérstaklega til að aðstoða Sýrlendinga.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanan hafa þegar látið til sín taka á jarðskjálftasvæðunum.

  • OCHA:  Samræmingarskrifstofa mannúðaraðstoðar, sér um að samræma komu alþjóðlegra leitar og björgunarsveita. Rúmlega fimmtíu slíkar sveitir eru þegar að störfum.
  • UNICEF: Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna vinnur hörðum höndum að því í Sýrlandi að tryggja að börn og fjölskyldur þeirra hafi aðgang að hreinu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu. Slíkt skiptir sköpum til að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma. Í Tyrklandi hefur UNICEF útvegað teppi, vetarföt og hreinlætisvörur.
  • UNHCR: Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna  hefur komið hitateppum, dýunm og öðrum hjálpargögnum til nauðstaddra í Sýrlandi. Sveitir UNHCR hefur aðstoðað flóttamenn jafnt sem og heimamenn í Tyrklandi með því að útvega neyðaraðstoð, þar á meðal eldunaraðstöðu, dýnur og tjöld.
  • WHO: Heilbrigðismálastofnunin hefur virkjað net neyðar-læknasveita til þess að sjá slösuðum fyrir nauðsynlegri læknisaðstoð og hjúkrun. Sendar hafa verið hamfara-birgðir til 16 sjúkrahúsa í norðvesturhluta Sýrlands.
  • WFP: Matvælaáætlunin sér um að koma neyðarmatvælasendingum til skila. Stefnan er að koma matarskömmtum til hálfrar milljónar manna.

Alþjóðleg mannúðaraðstoð getur skilið á milli lífs og dauða. Jafnvel þeir sem lifað hafa af, eru oft og tíðum slasaðir og bugaðir vegna dauða skyldmenna.

Hægt er að koma til hjálpar með því að láta fé af hendi rakna til eftirfarandi stofnana Sameinuðu þjóðanna. Smellið á nöfn þeirra:

Barnahjálp Sameinuðu þjóðannaUnited Nations Children’s Fund (UNICEF)

UNICEF á Íslandi.

Samræmingarskrifstofa í mannúðarmálumUnited Nations Office for the Coordination of Humanitarian Affairs (OCHA)

Flóttamannahjálpin- United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR)

HeilbrigðismálastofnuninWorld Health Organization (WHO)

MatvælaáætluninWorld Food Programme (WFP)

Palestínu-flóttamannahjálpinUnited Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East (UNRWA)

Sjá einnig hér, hér og hér.