Hungursneyð vofir yfir Sómalíu og Suður-Súdan

0
478
Sjö mánaða gamalt barn skoðað af lækni vegna vannærignar af völdum þurrka í Sómalíu
Sjö mánaða gamalt barn skoðað af lækni vegna vannærignar af völdum þurrka í Sómalíu. Mynd: UNICEF/Sebastian Rich

Hjálparstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna segja verulega hættu á hungursneyð í Sómalíu og Suður-Súdan og segja brýnna aðgerða þörf til að koma í veg fyrir skelfilegar hamfarir.

Matvælastofnun Sameinuð þjóðanna (WFP) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin (FAO) hafa gefið út neyðarkall í kjölfar birtingar síðustu matskýrslu um fæðu öryggi. Þar kemur fram að sex milljónir manna muni líða fyrir alvarlegt fæðu-óöryggi ef ekki rigni á næstu mánuðum.

Þessi tala hefur tvöfaldast frá því í ársbyrjun segir Lara Fossi, varforstöðumaður WFP í Sómalíu. Hún segir að síðast hafi hungursneyð ríkt í landinu 2011, en tekist hefði að forðast slíkt, þökk sé skjótum viðbrögðum hjálparstarfsmanna.

„Við vekjum nú athygli á að samkvæmt þessu mati hafa sex svæði í Sómalíu verið skilgreind sem hættusvæði. Hungursneyð vofir yfir eins og 2011 ef við grípum ekki í taumana nú þegar,“ segir Fossi.

Ástandið aldrei verra í Suður-Súdan

Suður-Súdan
Flóttamenn í Suður-Súdan. Mynd: UN Photo/Isaac Billy

 Ástandið er jafnalvarlegt i Suður-Súdan. Þar „blasir hungur líklega við frá maí til júlí á þessu ári,“ að sögn Meshack Malo fulltrúa FAO í Suður-Súdan. „Þetta þýðir að hungrið sverfi að 7.74 milljónum. Þetta er mesti fjöldi sem um getur.“

Hungursneyð var lýst yfir í tveimur héruðum Suður-Súdan 2017, en snörp viðbrögð komu í veg fyrir að ástandið versnaði enn frekar.

Malo sagði að 1.34 milljónir barna væru „alvarlega vannærð. Og rúmlega 600 þúsund óléttar konur eða með barn á brjósti eru vannærðar á þessu ári.“

Margir áhættuþættir  

 Borgarastríðið, sem geysaði í Suður-Súdan frá 2013-2020, á verulegan þátt í krónísku fæðu-óöryggi. Því fylgdi mikil eyðilegging, mannfall og fólksflótti. Tvær milljónir lentu á vergangi innanlands og 2.3 milljónir flúðu til nágrannaríkja.

Þá hafa mestu flóð í manna minnum stökkt fólki á flótta. Þau hafa grafið undan lífsviðurværi, því uppskera hefur minnkað með þeim afleiðingum að treysta hefur orðið á innflutt korn. Af þeim sökum hafa íbúarnir ekki getað útvegað sér nægjanlega næringarrík matvæli allt árið.