Hvatt til 30 kílómetra hámarkshraða  

0
904

Umferðarslys er algengasta dauðorsök hjá ungu fólki í heiminum. Að lækka hámarkshraða í íbúðabyggðum bjargar mannslífum. Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum herferðinni Götur í þjónustu lífsins (# Streets For Life #Love30). Í herferðinni er hvatt  til þess að tekinn verði upp 30 kílómetra hámarkshraði á klukkustund á þéttbýlum svæðum.  Vikan 17.-23.maí er Alþjóðleg vika umferðaröryggis á vegum Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

Umferðaröryggi er á dagskrá Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Það snertir sérstaklega markmiðin um heilbrigði, sjálfbærar borgir, fátækt og minnkun ójöfnuðar.  

Helsta dánarorsök  

Umferðarslys kosta einhvern jarðarbúa lífið á 24 sekúndna fresti. Þau eru algengasta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 15 til 29 ára. Með því að auka umferðaröryggi björgum við mannslífum.  

Hætta á manntjóni eykst umtalsvert í takt við hraða umferðarinnar.  Í ríkum löndum á hraðakstur þátt í þriðja hverju dauðsfalli í umferðinni.

Um leið og umferðarhraðinn er meiri en 30 kílómetrar á klukkustund  eru gangandi vegfarendur í umtalsvert meiri lífshættu. Þetta á sérstaklega við um yngstu og elstu vegfarendurna. Á 30 kílómetra hraða eða minni er hægt að stöðva bifreiða snöggt en það er mun erfiðara á aðeins 50 kílómetra hraða. Þar að auki minnkar jaðarsýn bílstjóra og viðbragðhraði eftir því sem hraðinn er meiri.  

Minnkandi hámarkshraði í Evrópu  

Mannslát í umferðinni eru mun fleiri í lág- og millitekjuríkjum en í auðugari löndum. 90% dauðsfalla á vegum úti eru í fátækari ríkjunum. Þó eru innan við helmingur bifreiðaflota heimsins í þessum löndum.

 Fæst banaslys á 100 þúsund íbúa eru í Evrópu, en flest í Afríku. Í Evrópu er hlutfallið 9.3 á hverja 100 þúsund íbúa en 26.6 í Afríku samkvæmt upplýsingum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar fyrir árið 2017.

Að mati WHO hafa flest Evrópuríki ágætar hraðakstursreglur. Þar er átt við að hámarkshraði sé ekki meiri en 50 kílómetrar á klukkustund í þéttbýli. Jafnframt sé sveitarstjórnum heimilt að minnka hámarkshraðann sem leyfður er á landsvísu á hverjum stað. Árið 2018 var fjöldi banaslysa miðað við 100 þúsund íbúa 2.7 í Noregi, 2.89 í Svíþjóð, 4.7 í Finnlandi en 6.6 á Íslandi. Það ár var raunar óvenju mannskætt í umferðinni á Íslandi.  Þá létust 15 en algengt er að 6 til 7 týni lífi í umferðinni árlega hér á landi.

Loftslagsbreytingar og mengun

Ekki má heldur gleyma því að minni hraði þýðir minni losun koltvísýrings í andrúmsloftið sem veldur loftslagsbreytingum.

Svíar telja þannig að skilvirkasta vopnið í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda sé fjöldi hraðamyndavéla sem komið hefur verið við samgönguæðar.

Þar að auki dregur úr umferðarmengun eftir því sem hraði minnkar, bæði útblæstri bifreiða og hávaða. Eldsneyti nýtist betur, viðhaldskostnaður minnkar og bensínkostnaður sömuleiðis.    

Umferðaröryggisvikan og Love 30 

 Herferðir eru öflugt tæki til að vekja fólk til vitundar um hættuna við hraðakstur og kosti þess að lækka hámarkshraða.  Alþjóðlega umferðaröryggisvikan hefur verið haldin með jöfnu millibili frá árinu 2007.

Herferðin er haldn 2021 í sjötta skiptið. Herferðin Götur í þjónustu lífsins (Streets for Life) hvetur til að 30 kílómetra hágmarkshraði verði meginreglan í borgum þar sem gangandi vegfarendur og bifreiðar deila götum.

Hvatt er til þess með vígorðinu ”Love 30” að hámarkshraði sé lækkaður hvarvetna. 30 kílómetra hraði skuli vera alls staðar þar sem fólk gengur, býr og leikur. Alþjóðlega umferðaröryggisvikan markar einnig upphaf Áratug aðgerða í þágu umferðaröryggis 2021-2030.

Allir eru hvattir til þess að taka þátt í herferðinni. Slíkt má gera með því að taka undir markmið hennar á samfélagsmiðlum með myllumerkin  #Love30 #StreetsForLife að vopni. Þá er hvatt til undirritunar opins bréfs í aðdraganda leiðtogafundar heims um umferðaröryggi á næsta ári. Opna bréfinu er ætlað að senda leiðtogum sameiginleg skilaboð um að götur verði helgaðar rmannslífum.