Illa brugðist við COVID-19 í upphafi -einnig í Kína

0
859
COVID-19

Óháð sérfræðinganefnd Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar telur að verulega skorti á núverandi kerfi við að uppgötva og vara við hugsanlegum heimsfaröldrum á borð við COVID-19, sé fullnægjandi.

Í bráðabirgðaskýrslu nefndarinnar er komist að  þeirri niðurstöðu að ferlið sé of „hægt, svifaseint og hikandi“. Þetta sé óviðunandi á tímum þegar upplýsingar um nýja faraldra ferðist hraðar en svo að ríki haldi í við það með formlegri upplýsingagjöf.

„Þegar hugsanleg heilsuvá er til staðar, ber ríkjum og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni að beisla stafræna tækni 21.aldarinnar til þess að halda í við fréttir sem berast jafnóðum á samfélagsmiðlum. Að auki berast nú sjúkdómsvaldar ógnar hratt vegna aukinna ferðalaga,“ sagði Helen Clark annar tveggja formanna nefndarinnar.

„Greiningar og viðvaranir voru hugsanlega skjótar á mælikvarða fyrri sambærilegra sjúkdómsvalda. Veirur breiðast hins vegar nú út innan mínútna og klukkustanda en ekki daga og vikna.“

Glötuð tækifæri frá byrjun

Óháða nefndin var stofnuð til þess að draga lærdóma af alþjóðlegum viðbrögðum við COVID-19. Fyrst varð vart við faraldurinn í Wuhan í Kína í desember 2019. Nú hafa 94 milljónir tilfella verið staðfestar og 2 milljónir manna látið lífið.

Í annari áfangaskýrslu nefndarinnar segir að ríki hafi brugðist hægt við kórónaveirufaraldrinum.

„Tækifæri glötuðust við að grípa til grundvallar-viðbragða á lýðheilsusviði í upphafi.”

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti því yfir 30.janúar 2020 að COVID-19 væri alþjóðleg lýðheilsuvá (PHEIC). Samt sem áður voru fá ríki sem gripu til lágmarks aðgerða til að stöðva útbreiðsluna innan og utan landamæra sinna.

„Nefndin telur augljóst að grípa hefði mátt til öflugri lýðheilsu-aðgerða af lands- og héraðsvísu í Kína í janúar,“ segir í skýrslunni.

„Nefndin telur einnig ljóst að upplýsingar lágu fyrir um tilfelli í mörgum ríkjum í lok janúar 2020. Þá hefðu heilbrigðisyfirvöld átt að grípa í taumana í öllum ríkjum þar sem veiran hafði fundist. Það var ekki gert.”

Vitlaust gefið

Helen Clark fyrrverandi forsætisráðherra Nýja Sjálands og Ellen Johnson Sirleaf fyrrverandi forseti Líberíu stýra nefndinni í sameiningu.

Viðbrögð við heimsfaraldrinum hafa einnig aukið fyrirleggjandi ójöfnuð að mati nefndarinnar. Þar eru bólusetningar augljósasta dæmið, en auðug ríki hafa hamstrað bóluefni.

„Það er vitlaust gefið í heimi þar sem hátekjuríki ná að bólusetja alla þegna sína. Lágtekjuríkjum verða hins vegar að sætta sig við að bólusetja 20% í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er hvorki réttlátt né líklegt til árangurs í að stemma stigu við faraldrinum,“ segir Ellen Johnson Sirleaf, annar tveggja formanna nefndarinanr.

Óháða nefndin hóf störf í september. Hún á að skila skýrslu til Alþjóða heilbrigðisþingsins, æðstu stofnunar WHO í maí.