Mannkynið að verða 8 milljarðar

0
392
8 milljarðar
Hópur ungmenna situr fyrir á mynd í bænum Ismail Bhand, í Shaheed Benazirabad sýslu í , Sindh héraði í Pakistan.

Mannfjöldi. 8 milljarðar jarðarbúa. Fjöldi jarðarbúa nær átta milljarðar markinu 15.nóvember eða þriðjudag samkvæmt spá Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Mannkyninu heldur áfram að fjölga en hægt hefur á fjölguninni. Fæðingartíðni minnkar hvarvetna.

„Jarðarbúar verða orðnir 8 milljarðar um miðjan nóvember, þökk sé vísindalegum framförum og bættri næringu, lýðheilsu og hreinlæti. En á meðan mannkyninu fjölgar setur sundrung í æ ríkari mæli mark sitt á heiminn.”, segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

15 ár í 9 milljarða

Ellefu ár eru liðin frá því sjö milljarða múrinn var rofinn, en það var árið 2011. Hins vegar  verður biðin eftir að mannkyninu fjölgi um milljarð til viðbótar lengri,  því ekki er búist við að níu milljarða markinu verði náð fyrr en eftir fimmtán ár. Það er hægasta fjölgun jarðarbúa frá því á sjötta áratugnum eða innan við 1 prósent á ári. Í dag fæðir hver kona að meðaltali 2.4 börn á ævinni.

Mannfjölgun á rætur að rekja til lækkandi dánartíðni sem kemur fram í auknum lífslíkum við fæðingu. Lífslíkur í heiminum eru að meðaltali 72.8 ár (2019) og er aukningin næstum níu ár frá 1990.

Búast má við að helmingur fjölgunar mannkyns frá 2020 til 2050 verði í átta ríkjum: Egyptalandi, Eþíópíu, Filippseyjum, Indlandi, Kongó, Nígeríu, Pakistan og Tansaníu.

„Við þessi tímamót er ástæða til að fagna fjölbreytileika okkar, viðurkenna það sem mannkynið á sameiginlegt og fagna þeim framförum sem orðið hafa í heilbrigðismálum. Það er þeim að þakka að lífslíkur hafa aukist gríðarlega og mæðra- og barnadauði minnkað,” segir António Guterres í skýrslu um fjölgun mannkyns, sem kom út fyrr á þessu ári.

 Sjá nánar hér.