Jarðlestarstöðvar í Kharkiv eru griðastaðir barna

0
570
Griðastaður barna í jarðlestarstöð í Kharkiv
Griðastaður barna í jarðlestarstöð í Kharkiv. Mynd: UNICEF.

 Jarðlestin í Kharkiv, næststærstu borg Úkraínu, gengur ekki lengur en jarðlestarstöðvarnar hafa fengið nýtt og áhugavert hlutverk. Hávaðasamar lestirnar þeysa ekki eftir teinunum en þess í stað heyrast raddir barna, að minnsta kosti á milli hvellana frá stórskotaliðinu uppi á yfirborðinu.

Teiknikennsla í jarðlestarstöð.
Teiknikennsla í jarðlestarstöð. Mynd: UNICEF.

Rúmlega mánaðarlöng átök hafa haft alvarleg áhrif á alla Úkraínubúa, ekki síst börnin. 4.3 milljónir barna hafa orðið að flýja heimili sín og milljónir til viðbótar þarfnfast öryggis, stöðugleika og verndar.

Þau sem leitað hafa skjóls í 29 jarðlestarstöðvum Kharkiv geta nú fengið sálfræði-félagslegan stuðning hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, og samstarfsaðilum hennar í Úkraínu. Á pöllunum þar sem fólk beið fyrir skemmstu eftir lestinni,  hefur verið komið fyrir öllu því sem þarf til að læra listir, leika sér eða lesa

Verkefninu hefur verið gefið nafnið “Spilno: fundarstaður æskunnar.”   Anastasiia Ulyantseva er einn af sjálfboðaliðunum sem starfa við verkefnið. “Á morgnana geri ég æfingar með börnunum í jarðlestarstöðinni og seinni partinn er ég með verkefni fyrir þau og skipulegg leiki,” segir Anastasiia sem er háskólakennari og móðir 13 ára gamallar stelpu.

 Tvær milljónir flóttabarna

Gæludýrin fylgjar mörgum börnum
Gæludýrin fylgja mörgum börnum Mynd UNICEF.

UNICEF hefur bent á að á meðal rúmlega fjögurra milljóna flóttamanna frá Úkraínu séu tvær milljónir barna. Þá eru 2.5 milljónir ungmenna á flótta innanlands.

“Ástandið í Úkraínu fer síversnandi,” segir Catherine Russell forstjóri UNICEF. “Fjöldi barna sem orðið hefur að flýja að heiman fer sívaxandi og við verðum að hafa hugfast að hvert eitt og einasta þeirra þarf á vernd, menntun, öryggi og stuðningi að halda.”

WFP aðstoðar eina milljón

Nærri fimm vikum eftir upphaf átakanna hefur Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP) veitt einni milljón manna innan landamæra Úkraínu matvælaaðstoð. Þetta er ekki lítið afrek því fyrir mánuði hafði WFP ekki einn einasta starfsmann, né birgðir í landinu.

“Flutningabílar, lestir og sendiferðabílar dreifa nú matvælum til þeirra sem minnst mega sín um allt landið og fleiri eru væntanleg næstu daga,” segir í yfirlýsingu WFP.

Stofnunin stefnir að því að ná til þriggja milljóna bágstaddra.