Á hverri sekúndu flýr barn frá Úkraínu

0
602
Þúsundir Úkraínumanna hafa leitað hælis í Póllandi.© WFP/Marco Frattini
Þúsundir Úkraínumanna hafa leitað hælis í Póllandi.© WFP/Marco Frattini .

Á hverri mínútu þurfa 55 börn að flýja heimaland sitt, Úkraínu. Það þýðir að frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu fyrir 3 vikum hefur barn orðið að flýja til framandi lands nánast á hverri sekúndu.

„Frá 24.febrúar hafa tugir barna verið drepin i Úkraínu. Miklu fleiri hafa særst og rúmlega 1.5 milljónir barna hafa orðið að flýja land,“ sagði James Elder talsmaður UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á blaðamannafundi í Genf.

„Ef við lítum á þessa tölfræði á annan hátt, þá hafa 75 þúsund börn orðið landflótta á hverjum degi frá upphafi stríðsins. Á hverjum einasta degi,“ sagði Elder. „Þetta samsvarar 55 börnum á mínútu, næstum einu á sekúndu.“

Mesti flóttamannastraumur frá stríðslokum

Ekkert lát er á flóttamannastraumnum, sem á sér engan líka frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar í Evrópu.

Á barnasjúkrahúsinu í Lviv í vesturhluta Úkraínu er krabbameinssjúkum börnum sinnt sem hafa orðið að flýja átakasvæðin. © UNICEF/Viktor Moskaliuk

„Eins og öll börn sem verða að flýja heimili sín undan stríði og vopnaviðskiptum, eiga úkraínsk börn á hættu að verða aðskilin frá fjölskyldum sínum og eru útsett fyrir ofbeldi, kynferðislega misnotkun og mansal,“ sagði Elder.

UNICEF heldur áfram starfi sínu í Úkraínu og hefur komið hjálpargögnum áleiði til landsins Um helgina komust 22 vöruflutningabifreiðar á áfangasað í Úkraínu. Þær fluttu 168 tonn af hjálpargögnum af ýmsu tagi, svo sem: búnað fyrir ljósmæður, frystibox, skurðlækningabúnað, súrefnishylki, vetrarföt, ábreiður, vatn, hreinætisvörur og fleira.

Úkraína gæti orðið fátækt að bráð

Á sama tíma hefur Þróunarstofnun Samenuðu þjóðanna, UNDP, varað við því að ef ekki takist að stilla til friðar gæti Úkraína verið í frjálsu falli og orðið örbirgð að bráð. Að sögn UNDP gæti 90% íbúa Úkraínu lent í fátæktargildru. Afturför myndi blasa við landinu og heimslutanum ef ekki verði stillt til friðar. Slíkt myndi marka djúp félagslega og efnahagsleg spor fyrir komani kynslóðir.