Kosovo: Erindreki SÞ boðar “afdráttarlausa yfirlýsingu” um framtíðarstöðuna fyrir lok mars

0
500

8. febrúar 2007 Erindreki Sameinuðu þjóðanna í viðræðum um framtíð Kosovo segir það túlkun deilenda, Serba og Kosovo-Albana að sjálfstæði felist í áætlun sem hann hefur lagt fram.
Tillögurnar voru kynntar deilendum í síðustu viku en í dag átti erindrekinn, Martti Ahtisaari fund með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ahtisaari boðaði ”afdráttarlausa yfirlýsingu” þar sem hann myndi skýra frá skoðunum sínum fyrir lok mars. Sameinuðu þjóðirnar hafa stýrt Kosovo frá 1999.  Samkvæmt áætlun Ahtisaari mun Kosovo-hérað öðlast rétt til að stjórna eigin málum og gera alþjóðlega samninga, þar á meðal um aðild að alþjóðastofnunum. Alþjóða samfélagið jafnt hermenn sem óbreyttir borgarar hefðu hönd í bagga með því að koma á nýskipan mála auk þess að tryggja frið og stöðugleika. Ahtisaari var spurður að því á blaðamannafundi í New York eftir fund hans með Ban framkvæmdastjóra hvort sjálfstæði fælist í áætlun hans. “Samkvæmt yfirlýsingum deilenda virðast þeir túlka áætlunina sem sjálfstæði undir yfirumsjón Alþjóðasamfélagsins”, sagði Ahtisaari. Serbía hafnar sjálfstæði sem er markmið Albana en þeir eru 90% íbúa Kosovo. Ahtisaari segir litlar líkur á því að samkomulag náist og því verði það Öryggisráðsins að skera úr um deiluna.