Kreppa er tækifæri

0
497

 eftir Ban Ki-moon, Susilo Bambang Yudhoyono, Donald Tusk og Anders Fogh Rasmussen

 

 Þjóðarleiðtogar sem nú safnast saman til fundar í Washington ættu að hafa í huga að við tvær kreppur er að etja. Til skamms tíma litið er fjárhagskreppan sú sem er mest aðkallandi, en þegar til lengri tíma er litið eru loftslagsbreytingar alvarlegri kreppa. Fjárhagskreppan krefst lausna en má ekki vera skálkaskjól til að takast ekki á við síðarnefndu kreppuna. Þvert á móti er hún tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi.   Við skulum láta hefðbundnar röksemdir fyrir aðgerðum lönd og leið: að niðurstöður vísindamanna séu ótvíræðar, að því lengur sem við grípum ekki til aðgerða því erfiðara verði það og að það sé siðferðisleg skylda okkar að berjast gegn loftslagsbreytingum. Þess í stað skulum við eingöngu beita hagnýtum efnahagslegum rökum.   

Hagvöxtur í heiminum er að minnka. Fé er af skornum skammti. Við munum sennilega hafa minna fé handa á milli til að takast á við sífellt fleiri hnattræn vandamál. Hvaða skref getum við þá stigið til þess að skapa störf og örva hagvöxt? Hvernig getum við tryggt orkuframboð á viðráðanlegu verði? Hvað getum við gert til þess að einangra fjármálakerfið frá áföllum og bólum sem springa, með það fyrir augum að allar þjóðir geti notið þróunar og efnahagslegs öryggis? 

 

Tveir greinarhöfunda, Ban Ki-moon og Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu á Loftslagsráðstefnunni í desember 2007 á Bali.  

Svarið er grænt hagkerfi 

Svarið er að leita sameiginlegra lausna á þeim alvarlega vanda sem blasir við okkur. Og þegar um er að ræða tvö alvarlegustu vandamálin – fjármálakreppuna og loftslagsbreytingar er aðeins eitt svar: grænt hagkerfi. Ef lífsháttum okkar er ógnað, hljótum við að aðlaga okkur. Vísindamenn eru á einu máli: til þess að takast á við loftslagsbreytingar þurfum við græna byltingu, róttæka breytingu á því hvernig við knýjum samfélög okkar. Hagfræðingar eru líka sammála þessu: helsti vaxtarbroddur hagkerfis heimsins er endurnýjanleg orka. Þar er verið að skapa störf framtíðarinnar og þar er verið að brydda upp á þeim tæknilegu nýjungum sem munu skapa næstu efnahagslegu umbreytingu heimsins.   Sagt er að morgundagurinn byrji í dag og vissulega er leiðtogafundurinn um fjárhagskreppuna í Washington mikilvægur. En við göngumst ekki síður undir prófraun í byrjun desember, þegar ríki heims koma saman til fundar í Poznan í Póllandi í næstu hrinu loftslagsviðræðna á vegum Sameinuðu þjóðanna.  Fundurinn er miðja vegu á Bali-vegvísinum sem samþykktur var á fundinum á Indónesíu á síðasta ári. Hann er lokaæfingin fyrir stóru samningalotuna á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn í desember að ári. Þar á að liggja fyrir heildstæður og metnaðarfullur loftslagssáttmáli sem allar þjóðir geta sætt sig við. 

 

Ban ásamt meðhöfundi sínum Donald Tusk, forsætisráðherra Pólverja sem eru gestgjafar fundarins í Poznan.  

Mikilvægur fundur í Poznan 

Umhverfis- og loftslagsráðherrar munu hittast að máli í Poznan í fyrsta sinn til að leggja grunninn að langtíma sýn um sameiginlegar aðgerðir. Þörf er á vinnuáætlun með skýrum markmiðum um minnkun losunar og aðlögun að loftslagsbreytingum ef samkomulag á að nást í Kaupmannahöfn. Við þurfum að komast að samkomulagi um verkaskiptingu stofnana, skýrar skuldbindingar um framlög í Aðlögunarsjóðinn. Umfram allt þurfum við á að halda afdráttarlausum vilja þróaðra- og þróunarríkja til að leggja sitt af mörkum. Fjármögnun mun skipta sköpum. Ef þróunarríkum er ekki tryggt fjármagn og tæknikunnátta til að “gerast græn”, munum við ekki geta barist á skilvirkan hátt við loftslagsbreytingar.   

Orð breytast ekki sjálfkrafa í aðgerðir. En eitt skulum við hafa á hreinu: þetta er það sem almenningur í heiminum vill og sama má segja um atvinnulífið, fjárfesta, ríkisstjórnir og almannasamtök. Reyndar er þetta nú þegar að gerast. Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) áætlar að fjárfestingar í orku sem losar engar gróðurhúsalofttegundir muni nema 1.9 billjón (milljónum milljóna) Bandaríkjadala árið 2020. Þetta er talsverður hluti samanlagðrar þjóðarframleiðslu ríkja heims. Nærri tvær milljónir manna um allan heim starfa í nýja vind- og sólarorkugeiranum, þar af helmingur í Kína. Nærri ein milljón störf eru sköpuð í Brasilíu við framleiðslu lífræns eldsneytis. Búist er við að fjárfestingar í umhverfistækni fjórfaldist í Þýskalandi á næstu árum og nemi 16 prósentum af iðnaðarframleiðslu árið 2030 og skapi fleirum atvinnu en bílaiðnaðurinn. 

Tæknin er til  

Við þurfum hvorki að bíða eftir nýrri tækni, né hafa of þungar áhyggjur af kostnaði við að grípa til aðgerða. Rannsóknir benda til að Bandaríkin gætu dregið verulega úr kolefnalosun sinni með litlum sem engum kostnaði og notast við fyrirliggjandi tækni.    Sem dæmi má nefna að Danmörk hefur fjárfest umtalsvert í grænum hagvexti. Frá árinu 1980 hefur þjóðarframleiðsla aukist um 78% en orkunotkun hefur aukist óverulega. Þessi orkusparnaður kemur fram í auknum hagnaði fyrirtækja. Einnig má nefna að evrópsk fyrirtæki í græna geiranum njóta frumherjastarfs síns og hafa um þriðjungs markaðshlutdeild í umhverfistækni. 

  

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana er einn greinarhöfunda. Danir hýsa Loftslagsráðstefnu SÞ 2009.

 

Með réttri stefnu og fjárhagslegri hvatningu – innan alþjóðlegs ramma – getum við stýrt hagvextinum í kolefnasnauða átt. Með réttum stefnumiðum og fjárhagslegri hvatningu getum við tryggt að jafnt þróunarríki sem þróuð ríki leggi sitt af mörkum í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Hver muna finna sína leið að markinu og enginn ætti að þurfa að gefa eftir rétt þegna sinna til þróunar og hagsældar.

  Verðum að sækja fram á öllum vígstöðvum 

Þetta vita framsýnustu forstjórararnir. Þetta er ein af ástæðum þess að fólk í atvinnulífinu víða í heiminum, krefst skýrrar og sjálfri sér samkvæmrar stefnu í loftslagsmálum – hnattrænna lausna á hnattrænu vandamáli. Í þessu samhengi skulum við viðurkenna að margar leiðir geta legið til Rómar. Á fundunum í Poznan og síðar í Kaupmannahöfn munu margir tala fyrir skýrum bindandi losunarhámörkum. Aðrir munu kjósa sjálfviljugar takmarkanir. Enn aðrir munu ræða um kosti og galla kolefnismarkaða annars vegar og skattlagningar hins vegar. Margir munu hvetja til þess að stefnt verði að því að minnka eyðingu skóga sem talin er valda fimmtungi losunar gróðurhúsalofttegunda. . Árleg fjárfesting að andvirði 17 til 30 milljarða Bandaríkjadala gæti helmingað þessa eyðingu skóga og auk þess eflt atvinnu í hitabeltislöndum á borð við Indónesíu.   En því miður erum við ekki í aðstöðu til að velja og hafna. Við þurfum að sækja fram á öllum vígstöðvum. Og það sem meira er við þurfum skelegga forystu, þar sem upplýst- og hnattræn sjónarmið haldast í hendur við aðgerðir. Fjármálakreppan hreyfir við okkur. Nýrrar hugsunar er þörf. Við þurfum frumlegar lausnir sem taka tillit til veigameiri hnattrænna áskorana sem við stöndum frammi fyrir. Fjármálakrepan er ekki skálkaskjól sem gefur okkur tækifæri til að slá því á frest sem nauðynlegt er að gera. Við megum engan tíma missa.. 

Ban Ki-moon er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna,, Susilo Bambang Yudhoyono er forseti Indónesíu, Donald Tusk er forsætisráðherra Póllands og Anders Fogh Rasmussen er forsætisráðherra Danmerkur.  

Greinin birtist í International Herald Tribune og fleiri blöðum í heiminum, þar á meðal Morgunblaðinu 12. nóvember 2008.