Kveikt á kertum til stuðnings konum í Afganistan

0
67
Forsætisráðuneytiið í dag.

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Af því tilefni er Harpa, Stjórnarráð Íslands, Gróttuviti auk fleiri bygginga lýstar upp í appelsínugulum lit, sem er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.

Hin árlega ljósaganga UN Women, Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi fellur niður sökum heimsfaraldursins. Þess í stað er fólk hvatt til að kveikja ljós til stuðnings konum í Afganistan.

Ljósagangan hefur markað upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem lýkur 10. desember á alþjóðlega mannréttindadeginum.

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist

UN Women á Íslandi beinir kastljósinu sérstaklega að Afganistan á Alþjóðlega baráttudeginum gegn kynbundnu ofbeldi og segir alþjóðasamfélagið hafa brugðist.

Í grein á heimasíðu UN Women á Íslandi segir að í sumum héruðum Afganistans sé konum bannað að mæta til vinnu og yfirgefa ekki heimili sín án karlkyns ættingja. Ráðist er á kvennaathvörf og starfsfólk þeirra áreitt.

UN Women á Íslandi segir að það sé sameiginleg ábyrgð okkar allra að ræður á tyllidögum verði að raunverulegum aðgerðum til að tryggja konum grundvallarmannréttindi. Það sé á okkar færi að sýna afgönskum konum samstöðu og tryggja að raddir  þeirra heyrist með því að hlusta.

Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

UN Women gleymir ekki

„Við hjá UN Women gleymum ekki, við erum á staðnum, við dreifum neyðarpökkum til kvenna og barna þeirra og grípum þolendur og kvenaðgerðasinna sem gefast ekki upp þrátt fyrir  skelfilegar aðstæður,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.Í dag skulum við í stað Ljósagöngu, kveikja á kerti af virðingu við óþrjótandi baráttu afganskra kvenna fyrir lífi án ofbeldis.“