Líbanon og Darfur efst á blaði í fyrstu heimsókn Ban Ki-moon austur um haf

0
538

Enduruppbygging Líbanons, átökin í Darfur og ástandið í Sómalíu verða í brennidepli þegar Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna heldur í sína fyrstu utanlandsferð frá því hann tók við embætti í næstu viku. Ban mun heimsækja Evrópu og Afríku í ferð sinni. 
Ban mun fyrst bera niður í Brussel en þar mun hann hitta að máli embættismenn Evrópusambandsins og NATO, Hans-Gert Pöttering, forseta Evrópuþingsins, auk Alberts II Belgíukonungs og Guy Verhofstadt, forsætisráðherra landsins.

Michele Montas, talskona framkvæmdastjórans tjáði blaðamönnum að Ban myndi halda þaðan til Parísar í því skyni að sækja ráðstefnu sem Jacques Chirac, forseti Frakklands boðar til, um enduruppbyggingu og þróun Líbanons í kjölfar átakanna á síðasta ári á milli Hesbolla og Ísraelshers. 

Búist er við að ríkisstjórn Líbanons kynni á fundinum efnahagsáætlun, þar á meðal tillögur um hvernig bera að standa skil á skuldum landsins og skjóta nýjum stoðum undir varanlegan hagvöxt. 

Ban ferðast því næst til Kongó (DRC) sem hýsir stærsta friðargæsluverkefni Sameinuðu þjóðanna í heiminum. Þar vonast hann til að hitta að máli Joseph Kabila um áframhaldandi lýðræðisþróun í landinu efir áratuga stríð, enræði og valdníðslu í þessu geysistóra Afríkuríki. Jafnframt hyggst hann færa friðargæsluliðum persónulegar þakkir sínar fyrir ósérhlífni þeirra í starfi. 

Frú Montas sagði að Ban myndi þessu næst halda til Addis Ababa í Eþiópíu til að sækja leiðtogafund Afríkusambandsins en þar er búist við að deilan í Darfur og ástandið í Sómalíu verði efst á dagskrá. 

Síðasti liður ferðarinnar verður heimsókn til Nairobi í Kenía sem hýsir höfuðstöðvar SÞ í Afríku en þar hyggst framkvæmdastjórinn heilsa upp á starfsmenn. Frú Montas staðfesti ennfremur að Ban myndi sækja fund svokallaðs Mið-Austurlanda kvartetts (SÞ, Evrópusambandið, Bandaríkin og Rússland) sem haldinn verður í Washington D.C. 2. febrúar næstkomandi.