Loftslagsbreytingar: 200 milljónir kunna að flosna upp árlega 2050

0
547
Alþjóðlegi umhverfisdagurinn
Alþjóðlegi umhverfisdagurinn

 António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna spáir því að 200 milljónir manna lendi á vergangi í heiminum á hverju ári frá og með 2050 af völdum loftslagsbreytinga. Alþjóðlegi umhverfisdagurinn er haldinn 5.júní.

 Í ávarpi í tilefni umhverfisdagsins bendir Guterres á að 3 milljarðar manna verði nú þegar fyrir barðinu á eyðileggingu vistkerfa. Þar að auki má rekja 9 milljónir snemmbærra dauðsfalla til mengunar. Ein milljón jurta og dýrategunda eru í útrýmingarhættu, sumar innan nokkurra áratuga.

Guterres ásamt forsprökkum Stokkhólmsfundarins.
Guterres ásamt forsprökkum Stokkhólmsfundarins. Mynd UNEP

 „Nærri helmingur mannkyns býr nú á loftslasg-hættusvæðum. Þar er fimmtán sinnum líklegra að deyja af völdum áhrifa loftslagsins á borð við öfgakennds hita, flóða eða þurrka,“ segir Guterres.

„Helmingslíkur eru á því að árleg meðalhækkun hitastigs í heiminum fari fram úr markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hækkun innan 1.5 gráðu á Celsius. Rúmlega 200 milljónir manna kunna að lenda á vergangi árlega af völdum þeirrar röskunar sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér fyrir 2050.“

Stærsti umhverfisdagurinn 

Umhverfisdagurinn 5.júní er stærsti alþjóðlegi dagur umhverfisins. Að þessu sinni eru Svíar gestgjafar dagsins #WorldEnvironmentDay 2022. Vígorð dagsins er „Aðeins einn heimur“  og kastljósinu beint að því að „lifa á sjálfbæran hátt í sátt við náttúruna.“

Alþjóðlegi umhverfisdagurinn
Alþjóðlegi umhverfisdagurinn

150 ríki halda upp á daginn. Í ávarpi sínu hvetur aðalframkvæmdastjórinn ríkisstjórnir til að setja loftslagsaðgerðir efst í forgangsröðina. Hann hvetur atvinnulífið til að hafa sjálfbærni í fyrirrúmi við ákvarðanatöku.

„Okkur ber að láta til okkar taka jafnt sem kjósendur og sem neytendur,“ segir Guterres. „Hvort heldur sem er þegar við veljum hvaða málstað við styðjum, hvaða mat við leggjum okkur til munns, hvaða samgöngutæki við notum, hvaða fyrirtæki við styðjum. Við getum öll tekið umhverfisvænar ákvarðanir og þegar allir leggjast á eitt, verða þær breytingar sem við þurfum.“

Stokkhólmsráðstefnan fimmtug

2022 er sögulegt ár fyrir alþjóðlegu umhverfishreyfinguna. Nú eru 50 ár liðin frá Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1972. Hún er talin fyrsta umtalsverða umhverfisþing sögunnar. Til hennar má rekja stofnun umhverfisráðuneyta og stofnana um allan heim og ýmsa alþjóðasamningu um vernd umhverfisins, auk Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Þar kom fram hugmyndin að Alþjóða umhverfisdeginum, sem haldinn var í fyrsta skipti árið eftir, 1973.

Alþjóðlegi umhverfisdagurinn
Frá Stokkhólmur50. Mynd UNEP

Alþjóðlegi fundurinn Stokkhólmur+50 var haldinn fimmtudag og föstudag (1.-2.júní) í Stokkhólmi í aðdraganda Alþjóðlega umhverfsidagsins. Fyrir 50 árum var þema Stokkhólmsráðstefnunnar einnig „Aðeins ein jörð.“ Þetta vígorð er endurtekið í ár enda fyllilega jafn mikilvægt nú og þá.

„Þema Umhverfisdagsins „Aðeins ein jörð“ er einfaldlega staðreynd. Þessi pláneta er okkar eina heimili“ segir António Guterres. „Á Stokkhólmur +50 fundinum var ítrekað að þörf er á öllum 17 heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun til að tryggja heilbrigði plánetunnar. Okkur ber öllum að taka ábyrgð á því að komið verði í veg fyrir að sú þrefalda áskorun, sem við stöndum frammi fyrir sviði loftslagsbreytinga, mengunar og líffræðilegs fjölbreytileika, verði að hamförum.“

 Sjá nánar hér .