Loftslagsbreytingar ógna árangri baráttunnar við fátækt í heiminum

0
458
HDR_2011_EN_Cover

Skýrslan um Mannlega þróun 2011 (Human Development Report 2011):

• Heilsufari og tekjuaukningu í þróunarríkjum stafar hætta af  aðgerðaleysi í loftslagsmálum
 

HDR_2011_EN_CoverÞróun í fátækustu ríkjum heims gæti stöðvast eða jafnvel verið snúið við um miðja öldina, ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða til að hægja á loftslagsbreytingum; hindra frekari umhverfisspjöll og draga úr ójöfnuði á milli og innan þjóða. Þetta er ein megin niðurstaða nýrrar skýrslu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP).
 

Í skýrslunni sem ber heitið Sjálfbærni og sanngirni: Betri framtíð fyrir alla (Sustainability and Equity: A Better Future for All) er því haldið fram að sjálfbært umhverfi verði best tryggt á réttlátan og skilvirkan hátt með því að draga úr ójöfnuði hvað heilsugæslu,menntun og tekjur varðar og auka jafnrétti kynjanna auk nauðsynlegra hnattrænna aðgerða í orkuframleiðslu og verndun vistkerfa.

Forstjóri Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna Helen Clark og Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur fylgdu skýrslunni úr hlaði í Kaupmannahöfn 2.nóvember. Nýja danska ríkisstjórnin hefur heitið því að draga úr losun koltvíserings í Danmerku um hvorki meira né minna en 40% á næstu tíu arum. 

Skýrslan kemur út í aðdraganda tímamóta ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um Sjálfbæra þróun á næsta ári. Ráðstefnan er kölluð Rio plús tuttugu en þar verður farið yfir stöðu mála tuttugu árum eftir Jarðar-ráðstefnuna, fundar leiðtoga veraldar, í Rio de Janeiro í Brasilíu og verður hún haldin á sama stað næsta sumar.

Í skýrslunni er því haldið fram að til að tryggja að núverandi og komandi kynslóðir lifi á sjálfbæran hátt, verði að takast á við félagslegt réttlæti. 

“Sjálfbærni er ekki eingöngu og ekki einu sinni aðallega mál umhverfisins,” skrifar Helen Clark í formála sínum. “Sjálfbærni snýst um það hvernig við kjósum að lifa okkar eigin lífi, vitandi að allt sem við gerum hefur afleiðingar fyrir þá sjö milljarða sem lifa á jörðinni í dag og þá milljarða sem á eftir koma á næstu öldum.” 

UNDP hefur látið taka saman Skýrsluna um mannlega þróun undir sjálfstæðri ritstjórn á hverju ári síðan 1990. Síðan þá hefur Mannlega þróunarstuðlinum (Human Development Index (HDI)) verið teflt fram gegn mælikvörðum sem eingöngun mæla efnahagslega þætti, þegar árangur landa í heiminum er borinn saman. Mannlegi þróunarstuðullinn metur heilsu, menntun og tekjur til að skrásetja lífsafkomu í heiminum. 

 Sjálfbærni og félagslegt réttlæti

Þrátt fyrir almenna framþróun í heiminum undanfarin ár, hefur tekjuskipting versnað, ójafnrétti kynjanna er þrálátt og viðvarandi og sífelld umhverfisspjöll leggja “tvöfaldar byrðar” á fátækustu heimilin og samfélögin, að því er fram kemur í skýrslunni. Rekja má helming allrar vannæringar í heiminum til umhverfisþátta, svo sem mengaðs vatns og skorts af völdum þurrka sem valda djöfullegri hringrás fátæktar og spjalla á vistkerfinu. 

Í skýrslunni er bent á að góð lífskjör þurfa ekki að haldast í hendur við mikla losun koltvíserings. Þótt góð lífskjör hafi á liðnum áratugum verið tengd mikilli losun, mældum í aukningu þjóðartekna, þá hafi kolefnanotkunin ekki verið ávísun á góðan árangur í öðrum viðmiðunum svo sem lífslíkum og menntun. Nú sé svo komið að mörg þróuð iðnríki minnki losun sína og viðhaldi hagvexti á sama tíma.

“Kolefnafrekur hagvöxtur er ekki forsenda betri lífsgæða í víðari skilningi mannlegrar þróunar,” segir Helen Clark. “Fjárfestingar sem auka jafnræði; til dæmis í aðgangi að endurnýjanlegri orku, vatni og hreinlætisaðstöðu og fæðingarheilbrigði – geta einnig eflt sjálfbærni og mannlega framþróun.”

Skýrslan hvetur til þess að þeim eina og hálfa milljarði manna sem býr við rafmagnsleysi, verði útvegað rafmagn. Þetta er hægt á einfaldan og tiltölulega ódýran hátt og án umtalsverðrar aukningar losunar gróðurhúsalofttegunda.

Í skýrslunni er tekið undir kröfur um að alþjóðlegir fjármagnsflutningar verði skattlagðir til að standa straum af kostnaðinum við baráttuna gegn loftslagsbreytingum og fátækt í heiminum. Skattur upp á aðeins 0.005 prósent á gjaldeyrisviðskipti gæti skilað fjörutíu millljörðum Bandaríkjadala á ári eða meira. Með þessu móti mætti auka verulega fjárflæði til fátækra ríkja en þróunaraðstoð í heild nemur um 130 milljörðum dala á ári 2010 og með því vega upp minnkun aðstoðar af völdum fjármálakreppunnar í heiminum

“Með þessum skatti myndu þeir sem græða mest á hnattvæðingunni geta hjálpað þeim sem hagnast minnst á henni,” segir í skýrslunni en þar segir að það muni kosta um 105 milljarða Bandaríkjadala árlega að fjármagna eingöngu aðlögun að loftslagsbreytingum, einkum í suður Asíu og Afríku sunnan Sahara.  

Í skýrslunni er farið í saumana á félagslegum þáttum sem oftast eru ekki tengdir sjálfbærni umhverfisins:
• Aukin réttindi til að stýra þungunum, bætt heilsugæsla og aðgangur að getnaðarvörnum getur opnað nýja víglínu í stríðinu gegn ójafnrétti kynjanna og fátækt, segir í skýrslunni. Þetta gæti síðan dregið úr álagi á umhverfið eftir því sem mannfjölgun minnkaði en því er nú spáð að íbúafjöldi jarðar nái 9.3 milljörðum innan fjörutíu ára.  

• Í skýrslunni eru færð rök að því að gagnsæi og sjálfstæðir eftirlitsaðilar, þar á meðal fjölmiðlar, borgaralegt samfélag og dómstólar gegni þýðingarmiklu hlutverki í aðhaldi að ákvarðanatöku sem snerti umhverfið. Ákvæði um umhverfisvernd eru í 120 stjórnarskrám en víða er þeim ekki framfylgt, segir í skýrslunni.

• Róttækra hnattrænna ákvarðana er þörf í þágu sjálfbærrar þróunar, en staðbundin frumkvæði til stuðnings blásnauðum samfélögum geta verið góð nýting fjár og umhverfisvæn, í senn, segir í skýrslunni. Þannig er bent á að atvinnutrygging í dreifbýli á Indlandi hafi kostað sem samsvarar 0.5% af þjóðarframleiðslu árið 2009 en komið 45 milljónum heimila til góða eða tíunda hluta alls vinnuafls. Þá er bent á að Bolsa Familia áætlunin í Brasilíu og Oportunidades áætlunin í Mexíkó hafi kostað um 0.4 prósent af þjóðarframleiðslu en nýst fimmtungi þjóðanna sem öryggisnet.

Höfundarnir spá því að verði ekki að gert muni umhverfisspjöll; frá þurrkum í Afríku sunnan Sahara,  til hækkunar yfirborðs sjávar í lágt liggjandi löndum á borð við Bangladesh; valda allt að 50% hækkun matarverðs í heiminum og snúa við viðleitni til að auka aðgang milljarða manna að drykkjarvatni, hreinlætisaðstöðu og orku, sérstaklega í suður Asíu og Afríku sunnan Sahara.

Ef gert er ráð fyrir að umhverfið verði fyrir “skakkaföllum” á næstu hálfri öld er gert ráð fyrir að meðaltals mannlegrar þróunar-stuðullinn verði tólf prósent lægri en ella í suður Asíu og Afríku sunnan Sahara árið 2050. Sé hins vegar miðað við að allt fari á versta veg, myndi “hamfara” reikningsdæmi  hljóða upp á fimmtán prósenta lægri stuðli á þessum svæðum. Þá er miðað við miklu skógartapi, stórfelldri minnkun fjölbreytni lífríkisins og auknum ofsaveðrum. Slíkt ylli mestum skaða á fátækustu hlutum jarðar.

Slík umhverfisspjöll gætu gert að engu áratuga langa viðleitni til þess að auka aðgang  fátækasta fólks heims að vatni, hreinlæti og rafmagni:“Þetta er mikill skaði í sjálfum sér að því ógleymdu að mannréttindi væru einnig verulega skert,” segja höfundar skýrslunnar. 
* * *

UM SKÝRSLUNA: Hin árlega Skýrsla um mannlega þróun nýtur ritstjórnarlegs sjálfstæðis og er gefin út af Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Development Programme, UNDP).  Til að hala skýrslunni niður í heild ókeypis, farið á: http://hdr.undp.org.

UM UNDP: sjá: www.undp.org