Lyfjaþolnir sýklar í vatni geta komið af stað nýjum heimsfaraldri

0
522
Antibiotics Sýklalyf
Mynd: Towfiqu Barbhuiya/Unsplash

Án þess að fólk viti af því eru sýklalyf í vaxandi mæli í venjulegu vatni. Er óttast að þetta kunni að valda því að lyfjaþolnum sýklum fjölgi og kunni hugsanlega að valda nýjum heimsfaraldri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

Skólphreinsunarstöð.
Skólphreinsunarstöð. Mynd: Ivan Bandura/Unsplash

Í skýrslunni er því haldið fram að þessari hættu hafi ekki verið gefinn nægjanlegur gaumur í heiminum. Sýklalyfjaþol geti myndast vegna þess að sýklalyf berist út í umhverfið með salernum eða þegar fólk gengur örna sinna á víðavangi. Árið 2015 neytti mannkynið 34.8 milljarða skammta af sýklalyfjum og er gert ráð fyrir að 90% virka efni lyfjanna endi í náttúrunni.

80% skólps í heiminum er óhreinsað og jafnvel í þróuðum ríkjum sleppa hættulegar bakteríur út í umhverfið. Þetta getur haft í för með sér að ofurbakteríur, sem nútíma læknavísindi ráða ekki við, þrífist og dafni, að sögn skýrsluhöfunda.

5 milljón dauðsföll 2019

Talið er að sýklalyfjaþolnar sýkingar hafi tengst dauða nærri 5 milljóna manna árið 2019. Ef ekki verður gripið þegar til aðgerða gæti þess tala hækkað í 10 milljónir fyrir 2050. “Annar heimsfaraldur lúrir í felum,” segir í skýrslunni. “Afleiðingar áframhaldandi þróunar og útreiðsla sýklalyfjaþolinna sjúkdómsvalda gæti haft skelfilegar afleiðingar.”

Sýkingalyfjum er ætlað að drepa eða hindra vöxt sýkla eða sjúkdómsvalda. Í þessum flokki kennir ýmissra grasa, svo sem sýklalyf, sveppaeyði, sníkjudýraeyði, sum sótthreinsiefni og sóttvarnandi lyf.

Bakteríur
Mynd: Svejtekolem/Unsplash

“Sýklalyf og slík lyf bjarga mannslífum en það ber að hafa í huga að þau enda í vatninu okkar,”segir Leticia Carvalho  sérfæðingur hjá UNEP. “Þau ber að nota af gát til að koma í veg fyrir sýkingalyfjaþol  sem felur í sér umhverifs- og fjárhagslega áhættu fyrir fyrirtæki og þjóðfélagið í heild.”

 Hvað ber að gera?

Að mati skýrsluhöfunda er hægt að berjast gegn þessari alheimshættu með því að draga úr magni sýklalyfja, sem menga umhverfið og með því að bæta hreinsun skólps. Þá séu sýklalyf of oft notuð að þarfleysu. Ríki þurfi að setja sér áætlanir um minnkun sýkingalyfja sem berist út í umhverfið.

Í skýrslunni eru ríki hvött til að beita svokallaðri “Einnar heilsu nálgun”, (One Health approach) en hún felur í sér þá hugmynd að heilsa manna og dýra tengist innbyrðis og ennfremur heilbrigði viskerfa umhverfis síns. Sem dæmi má nefna er hvatt til að minnka ágang á skóga, en eyðing þeirra leiðir til þess að leiðir manna og sýklaberandi villtra dýra liggja saman með þeim afleiðingum að sýklar ferðast á milli tegunda.

“Við ættum að læra af COVID-19 heimsfaraldrinum, en einn af lærdómunum er sá að berjast ber á mörgum vígstöðvum gegn ýmissri heilbrigðisvá, sérstaklega hvað umhverfið varðar,” segir í skýrslunni.