„Baráttan við sýklalyfjaþol: Engar aðgerðir í dag, engin lækning á morgun”

0
509
alt

 

Hér fylgir ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í tilefni af Alþjóða heilbrigðismáladeginum 7. apríl 2011:

 

Baráttan við sýklalyfjaþol: Engar aðgerðir í dag, engin lækning á morgun”

 

Uppgötvun sýklalyfja og annara lyfja af sama toga, markaði einhverja mestu framþróun sem um getur í sögu heilbrigðismála. Áður en þessi lyf voru kynnt til sögunnar á fimmta áratug síðustu aldar, létust tugir milljóna manna af smitsjúkdómum á hverju ári. Þessi lyf áttu sinn þátt í að minnka mannfall af völdum smitsjúkdóma.

 

altSigrar unnust í fyrstu í hátekjulöndum og meðal hinna betur stæðu í fátækum ríkjum. Á síðustu tveimur áratugum hafa nýjar heilbrigðisáætlanir og fjárhagsleg úrræði gert fátækari samfélögum kleyft að útvega lyf til að berjast við mannskæðustu sjúkdómana á borð við berkla, HIV, mýrarköldu (malaríu), lungnabólgu og niðurgangspestir. Einkasala á lyfjum fyrir menn og dýr hefur einnig stóraukist. 

 

Þetta var mikill ávinningur en nú eigum við á hættu að missa mörg af þessum dýrmætu lyfjum eftir því sem fleiri lyfjaþolnar lífverur skjóta upp kollinum. Slíkt sýklalyfjaþol er náttúrulegt fyrirbæri en hefur aukist af völdum of mikillar og rangrar notkunar lyfja og útbreiðslu þolinna sýkinga í heilsugæslu og landbúnaði. Viðskipti, ferðalög og fólksflutningar auka útbreiðslu þessara lífvera þvert á samfélög og landamæri.

 

Sum þeirra lyfja sem björguðu foreldrum okkar og foreldrum þeirra eru nú þegar ónothæf. Lyfjaþol eykur gríðarlega kostnað í heilbrigðiskerfinu og tekur sífellt stærri og ónauðsynlegan toll í mannslífum og gæti hreinlega útrýmt þeim árangri sem náðst hefur á heilsutengdum ákvæðum Þúsaldarmarkmiðanna um þróun. Lyfjaþol gæti einnig grafið undan öðrum árangri nútíma læknavísinda og tækni í baráttu við sjúkdóma sem ekki smitast. Alvarlegast er þó ef til vill að sú uppspretta sem færði okkur sýklalyfn hefur nánast þornað upp.

 

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur valið “Baráttan við sýklalyfjaþol: Engar aðgerðir í dag, engin lækning á morgun” sem þema Alþjóða heilbrigðisdagsins í ár. Margir eiga hlut að máli í að glíma við þetta flókna vandamál. Þörf er á heildstæðum viðbrögðum þvert á geira, innan og á milli þjóða.

 

Í dag hvetur WHO til aðgerða í því skyni að skilgreina ábyrgð og stöðva útbreiðslu lyfjaþols með sex-punkta stefnumálapakka..Þar er kveðið á um sameiginlegar áætlanir, lyfjaregluverk, skynsamlega notkun lyfja, hindrun og stýringu á smiti, uppfinningar og rannsóknir. Ríkisstjórnir, iðnaðurinn og allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta verða að hlýða kallinu. Heilsugæsla heimsins og óteljandi mannslíf eru í veði.

 

Ban Ki-moon.