Lýst yfir neyðarástandi í höfunum

0
100

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að heimsbyggðin stæði nú frammi fyrir „neyðarástandi í hafinu“ eftir að hafa látið skeika allt of lengi að sköpuðu.  

Í opnunarræðu sinni á Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lissabon í Portúgal í dag, sagði hann að tími aðgerða væri runninn upp.

Guterres ávarpar Hafráðstefnuna.
Guterres ávarpar Hafráðstefnuna. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

„Við verðum að snúa þróuninni við,“ sagði Guterres og benti á að hlýnun jarðar hefði í för með sér methitastig í hafinu með þeim afleiðingum að ofsaveður væru tíðari, hafið súrara og yfirborð þess hærra en áður.

„Heilbrigð pláneta án heilbrigðs hafs er ekki í boði. Ef við hlúum ekki að hafinu mun það hafa margs konar áhrif á alla liði Áætlunar 2030,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn og vitnaði til Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun.

Plastmengun, ofveiði og súrnun

Á annari Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 27.júní til 1.júlí verða málefni á borð við plastmengun og ofveiði í deiglunni, auk verndarsvæða í sjónum, námagröft á hafsborni, vernd og endurreisn vistkerfa sjávar.

Á ráðstefnunni verður leitast við að efla nýsköpun byggða á vísindalegri þekkingu til að hvetja til aðgerða og hefja nýjan kafla í aðgerðum í þágu hafsins.

Hafráðstefna
Gutteres ræðir við unga þátttakendur á Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

„Nærri 80% skólps er losað í hafið án hreinsunar. Og meir en 8 milljónir tonna af plastrusli er fleygt í hafið á ári. Ein plastþekjan á Kyrrahafinu er stærri en Frakkland. Án brýnna aðgerða  getur verið meira af plasti en fiski í sjónum fyrir 2050,“ sagði Guterres.

Hafið er helsta lífsviðurværi rúmlega eins milljarðs manna. 40 milljónir manna vinna störf sem tengjast sjónum.

Sjálfbærar fiskveiðar

Guterres sagði að hömlulaus ofveiði og ósjálfbærar fiskveiðar væru stundaðar í heiminum. Hins vegar, hefðu fiskveiðar tekið við sér þar sem stjórn hefði náðst á þeim.

Hann sagði að árangur hefði náðst á alþjóðlegum vettvangi nýverið. Nefndi hann sérstaklega að verið er að semja um nýjan samning til að takmarka plastmengun og að Alþjóða viðskiptastofnunin hefur samþykkt að binda enda á skaðlegar ríkisstyrki til fiskveiða.

Hafráðstefna SÞ
Mynd: Dan Stark/Unsplash

 „Með sjálfbærri nýtingu sjávar má sækja allt að sex sinnum meiri fæðu til hans og framleiða 40 sinnum meira endurnýjanlega orku en nú er,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn í opnunarræðu sinni á Hafráðstefnunni í Lissabon.

Portúgal og Kenía eru gestjafar í sameiningu og á meðal þátttakenda eru 15 þjóðhöfðingjar og 8 oddvitar ríkisstjórna.