Fimm hlutir sem þú ættir að vita um Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

0
588
Hafráðstefna SÞ
Nazaré strönd í Portúgal .Mynd: © Unsplash/Tamas Tuzes-Katai

Hafið er stærsta vistkerfi heims, temprar loftslagið og færir milljörðum manna lífsviðurværi. En heilsu þess fer hrakandi. Önnur Hafráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í júní verður mikilvægt tækifæri til að stöðva þann skaða sem mannkynið veldur á lífi í sjónum og lífsviðurværi fólks.

Þátttakendur í ráðstefnunni verða fulltrúar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, almannasamtök og háskólar. Auk þess verður athafnafólk, sem leitar sjálfbærra leiða til að þróa „bláa hagkerfið“ svokallaða, í sviðsljósinu. Vonir standa til að ráðstefnan sem haldin er í Lissabon, höfuðborg Portúgals, 27.júní til 1.júlí, marki tímamót í sögu hafsins.

  1. Tími til kominn að einbeita sér að lausnum

 Litið var á fyrstu Hafráðstefnuna 2017 sem kaflaskil í því að vekja athygli heimsins á vanda hafsins. Að mati Peters Thomsons, sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins, mun Lissabon-ráðstefnan „snúast um að leita lausna á þessum vanda.“

Ráðstefnunni er ætlað að skapa alþjóðasamfélaginu rými til að veita vísindalegum lausnum og nýsköpun í þágu sjálfbærrar stýringar hafsins brautargengi.  Verkefnin eru ærin, svo sem að stemma stigu við súrnun hafsins, mengun, ólöglegum fiskveiðum og tapi búsvæða og líffræðilegs fjölbreytileika. Ráðstefnan mun ákvarða hversu metnaðarfullur Áratugur hafvísinda í þágu sjálfbærrar þróunar (2021-2030) verður. Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið 10 markmið í málefnum hafsins sem ber að ná á þessum áratugi. Þau eru hluti af Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun (2030 Agenda), vegvísi Sameinuðu þjóðanna um betri framtið fyrir jarðarbúa og plánetuna. Á meðal þeirra eru aðgerðir til að hindra og minnka mengun og súrnun sjávar, vernd vistkerfa, stjórnun fiskveiða og aukin vísindaþekking. Á ráðstefnunni mun kastljósi beint að þessum málum í gagnvirkum samræðum.

Æskan verður einnig í brennidepli í Lissabon. Ungt athafnafólk, sem sinnir nýsköpun byggðri á vísindum, mun taka virkan þátt í samræðum. 24.-26.júní er vettvangur æsku og nýsköpunar í Lissabon.

  1. Mikið er í veði

Hafráðstefna SÞ
Fiskimaður í Kenía. Mynd: © UNDP/Amunga Eshuchi

Hafið færir okkur súrefni, fæðu og lífsviðurværi. Það býr yfir ótrúlegum líffræðilegum fjölbreytileika og leggur grunninn með fæðu og orkugjöfum að velferð mannsins. Auk þess að vera uppspretta lífs, temprar hafið loftslagið og hýsir kolefni með því að fanga gróðurhúsalofttegundir.

Að mati Sameinuðu þjóðanna búa nú 680 milljónir manna við strendur og er búist við að talan hækki í einn milljarð um 2050. Þá er gert ráð fyrir að við lok áratugarins hafi 40 milljónir manna atvinnu af starfsgreinum sem tengjast sjónum.

  1. Kastljós á Kenía og Portúgal

Hafráðstefna SÞ
Nzambi Matee með endurunnið plast sem notað er í gangstéttir. Mynd: UNEP

Þótt ráðstefnan fari fram í Portúgal er Kenía einnig gestgjafi. Í síðarnefnda landinu býr 65% íbúa við ströndina í driefbýli og hefur lífsviðurværi af fiskveiðum, landbúnaði og námavinnslu. Nzambi Matee frá Nairobi, Æskulýðs-jarðarmeistari Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP -Young Champion of the Earth). Hún er stofnandi Gjenge Makers, sem framleiðir ódýrt en sjálfbært byggingarefni úr endurunnu plastrusli. Matee hirðir plast, sem sjómenn hirða úr hafinu og býr til úr þeim efni í gangstéttir. „Endurvinnsla á plastrusli úr hafinu hefur gert mér kleift að ráða 113 ungmenni og konur í vinnu. Við höfum nú framleitt 300 þúsund einingar. Ég lifi á sjónum og því er hafið líf mitt,” segir hún.

Portúgal hefur langa strandlengju og íbúarnir hafa sömu ástríðu fyrir hafinu og Keníabúar

„Væntingar okkar til Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er að þetta verði ráðstefna sem snúist um aðgerðir en ekki aðeins skuldbindingar,” segir Catarina Grilo hjá náttúruverndarsamtökunum Associação Natureza Portugal (ANP).

  1. Náin tengls hafs og loftslags

Hafráðstefna SÞ
Verndarsvæði undan ströndum Möltu. Mynd: © FAO/Kurt Arrigo

Hafið og lofslagið tengjast innbyrðis og hafa gagnkvæm áhrif hvort á annað. Loftslagsbreytingar eru ógn við líf á jörðinni og vísindamenn hafa vakandi auga með ýmsum vísitölum. Samkvæmt síðustu loftslagsskýrslu Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (WMO) hækkaði yfirborð sjávar að meðaltali um 4.5 millimetra á ári frá 2013 til 2021 vegna þess að íshellur bráðna sífellt hraðar.

Sjórinn gleypir í sig 23% af þeim koltvísýringi sem losnar við virkni mannsins. Við það súrnar hins vegar hafið en slíkt ógnar umhverfi hafsins. Og það sem meira er því súrari sem sjórinn er, því minni koltvísýring getur hann fangað.

Samuel Collins verkefnisstjóri hjá Oceano Azul stofnuninni í Lissabon telur að ráðstefnan varði veginn til COP27, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi í nóvember á þessu ári. „Hafið tengist loftslaginu órjúfanlegum böndum. Það hýsir 94% lífvera á plánetunni. Ég get rutt út úr mér tölfræði sem kemur öllum í opna skjöldu” segir þessi 27 ára gamli Skoti. „Ástæða þess að við getum keypt ódýra vöru út í búð er sú að 90% allrar vöru er flutt sjóleiðina. Við tengjumst því öll, þökk sé hafinu, meira að segja landluktar þjóðir. Sú lífvera er ekki til á jörðinni sem ekki verður fyrir áhrifum frá sjónum.“

  1. Hvernig getur þú haft áhrif?

Hafráðstefna SÞ
Strandhreinsun í Praia da Poça á strandlengjunni Estoril – Cascais í Portúgal. Mynd: UN News/Teresa Salema

Við spurðum sérfræðingana hvað óbreyttir borgarar geta gert til að leggja sín lóð á vogarkálarnar og efla “bláa hagkerfið”, á meðan beðið eftir að ákvarðanir séu teknar. Hér eru nokkrar hugmyndir.

Ef þið borðið fisk, er þjóðráð að halda sig ekki alltaf við sömu tegund, heldur dreifa neyslu sjávarafurða á fleiri en eina tegund. Og auðvitað ber alltaf að haga í huga hvort varan komi frá ábyrgum framleiðendum.

Varist plastmengun. 80% mengunar í hafinu á rætur að rekja til fastalands og berst þaðan í hafið. Gott er að nota endurnýttar vörur, varast einnota hluti og auðvitað að flokka ruslið. Ekki fleygja í sjóinn og plokkið endilega.

Fyrst og fremst hugið að umhverfisfótspori ykkar og hjálpið hafinu óbeint með því. Og styðjið við lausnir hvort heldur sem er í samtölum, með því að skrifa stjórnmálamönnum, undirrita bænaskrár eða styðja herferðir sem miða að því að hafa áhrif hvort heldur sem er heimafyrir, í héraði eða á alþjóða vettvangi.