Maður brettir upp ermarnar og lætur verkin tala

0
449
FinnReskeNielsen

FinnReskeNielsen

Norðurlandabúi mánaðarins : Finn Reske-Nielsen

Hinum megin á hnettinum fyrir norðan Ástralíu er lítið land sem heitir Tímor-Leste.

Það er aðeins 15.400 ferkílómetrar og því tæplega sjöundi hluti Íslands. Sameinuðu þjóðirnar hafa haft friðargæslusveit í landinu í mörg ár en um síðustu áramót urðu kaflaskpti í sögu landsins. Fréttabréfið náði tali af Norðurlandabúa sem stýrir friðargæslusveitinni UNMIT sem nú er að pakka saman. Daninn Finn Reske-Nielsen hefur komið víða við á þrjátíu og sex ára ferli sínum hjá Sameinuðu þjóðunum. Hannah Scheldt Nielsen ræddi við hann. 

Þú hefur starfað í fjölda landa við margvísleg verkefni. Hvers vegna valdir þú að starfa á alþjóðlega vísu með Sameinuðu þjóðunum?
 
”Þegar ég var við nám við Stjórnmálafræðistofnunina í Árósaháskóla vann ég um árabil sem aðstoðarkennari og aukakennari, þannig að ég hafði eiginlega ætlað mér feril innan háskólasamfélagsins. En mér fannst að ég ætti að reyna eitthvað annað áður en ég myndi binda mitt trúss við kennslu og rannsóknir; eitthvað praktískt kannski. Ég sótti því um stöðu (Junior Professional Officer) á skrifstofu Flóttamannahjálparinnar (UNHCR) í Lusaka í Sambíu árið 1977. Á þessum árum var suðurhluti Afríku í brennidepli heimsmála því nýlenduveldin voru að hverfa á braut. Borgarastríð var í Ródesíu (nú Simbabwe) og kynþáttaðskilnaður í Suður-Afríku og þúsundir flóttamanna streymdu til ýmissa landa á svæðinu. Þetta var allt í senn mikil áskorun, spennandi, dramatískt, tragískt og reyndi á þolrifin.
 
Hvað gerðir þú í Danmörku áður en þú fórst að vinna hjá SÞ?
 
”Ég var sem sagt mest í fræðaheiminum sem mér fannst áhugaverður en kannski svolítið fjarri raunveruleikanum og teorískur. Ég gerði ráð fyrir að það væri hægt að leggja sitt af mörkum á annan hátt. Starf með flóttamönnum var alveg nýtt svið fyrir mig og þar gat ég hjálpað nauðstöddum á raunhæfan hátt.” 

Hvaða reynslu hafðir þú frá heimalandinu þegar þú hélst til átakasvæðanna?   

”Danmörk er jú, þökk sé forsjóninni, friðsælt ríki. Það var því mikil þolraun að koma til Lúsaka og komast að raun um hvernig stríð, fátækt og félagsleg spenna grafa undan heilu samfélagi. Í upphafi bjóst ég við að mikið af þeirri reynslu sem ég kom með í farangrinum úr dönsku samhengi myndi gagnast mér í þriðja heiminum. Það var út af fyrir sig rétt í vissum skilningi. Sum grundvallar gildi vestrænnar menningar á borð við gagnkvæma virðingu, jafnrétti gagnvart lögum og félagslegt réttlæti áttu vel við en ég komst fjótt að því að hvert land eða sérhver menning krefst eigin lausna.” 

Þú hefur verið á átakasvæðum. Hvernig tekst þú á við erifðar kringumstæður án þess að láta slá þig út af laginu?

”Fyrst og fremst með því að skilja samhengið. Af hverju eru hlutirnir eins og þeir eru? Þá fyrst getur maður reynt að láta gott af sér leiða. Og þá getur maður brett upp ermarnar og látið verkin tala. Ég man sérstaklega eftir því þegar ég kom í flóttamannabúðir fyrir norðan Lusaka rétt eftir árás þar sem tvö hundruð létust og fleir þúsundir særðust. Það var mikil eldskírn fyrir nýútskrifaðan danskan stjórnmálafræðing sem var vanari hlýjum dönskum stofum og þægilegum lestrarsölum í Árósum, en blóðsúthellingum á átakasvæðum.”
 

Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna á Timor-Leste (sem áður hét Austur-Tímor) lauk störfum 31. desember síðastliðinn. Hvað er stærsta áskorun landsins þessa stundina?
 
”Það hafa ekki margir norður Evrópubúar heyrt um Austur-Tímor. Landið var hersetið af Indónesum í 25 ár eða þar til eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 1999. Hún ruddi brautina fyrir sjálfstæði landsins þremur árum síðar en ekki fyrr en hundruð manna höfðu látist og mikil eyðilegging orðið í blóðugum óeirðum. Þegar ég kom til landsins í október 1999 hafði enn ekki verið stillt til friðar og þetta var eins og að koma á átakasvæði enda hafði helmingur landsmanna flúið til fjalla. Í dag er erfitt að gera sér þetta í hugarlund. Það ríkir pólitískur stöðugleiki og ný ríkisstjórn sem valin var í lýðræðislegum kosningum er við völd. Hagvöxtur er meir en tíu prósent á ári og maður getur ferðast hindrunarlaust landshorna á milli. Áskorun framtíðarinnar er að berjast gegn fátækt. Timor-Leste býr yfir auðæfum á borð við olíu og gas en því fer fjarri að almennir borgarar, ekki síst í dreifbýli, hafi fengið að njóta ávaxtanna enn sem komið er. Það þarf að fjárfesta mikið í menntakerfinu til þess að auka gæðin. Heilbrigðiskerfið er ófullnægjandi og vannæring barna á meðal þess mesta sem þekkist í heiminum.”
 
Getur land eins og Timor-Leste dregið lærdóma á einhverjum sviðum af reynslu Norðurlanda við endurreisn samfélagsins?   

”Timor-Leste hefur þegar lært mikið af Norðurlöndum. Olíusjóður landsins er nánast hannaður eftir norskri fyrirmynd. Landið hefur líka byggt upp lýðræði sem svipar að mörgu leyti til Norðurlandanna, en auðvitað er langt í land með að undirliggjandi venjur og siðir breiðist út um allt samfélagið. ”

Hvert er þitt hlutverk á eynni?

”Síðan í júlí á síðasta ári höfum við einbeitt okkur að því að loka núverandi friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna á eins sársaukalausan hátt og hægt er. Við höfum nú sent þrjú þúsund karla og konur heim. Á næstu mánuðum lokum við þeim skrifstofum og vöruskemmum sem við höfum notað undanfarin ár og við reiknum með að afhenda heimamönnum stóran hluta útbúnaðs okkar. Þannig erfa yfirvöld, til dæmis lögreglan, bíla, tölvur og samskiptabúnað. Þróunarstofnanir Sameinuðu þjóðanna svo sem UNDP og UNICEF munu vera áfram í landinu og halda áfram hefðbundinni tæknilegri aðstoð enn um sinn.”

Hvað tekur svo við hjá sjálfum þér að loknu starfinu á Tímor, ferðu til annars lands og hvaða hlutverki munt þú gegna hjá SÞ?
 
”Það er kominn tími til eftir næstum 36 ár í þjónustu Sameinuðu þjóðanna að snúa heim til Danmerkur. Við höfum keypt okkur hús í Álaborg og reiknum með að setjast þar að í vor. Ég vonast til að reynsla mín og sérþekking gagnist dönsku samfélagi á einn eða annan hátt. Ég verð svo að sjálfsögðu til taks ef framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tæki upp á því að biðja mig um að koma til hjálpar einhvers staðar í heiminum.”