Malaría: Sjúkdómur hinna fátæku  

0
268
Alþjóðlegur dagur malaríu
Heimili Bjartrar sýnar í Kenía

Malaría. 619 þúsund manns láta lífið af völdum malaríu – mýraköldu- árlega í heiminum. Meir en 95% tilfella og dauðsfalla af völdum malaríu voru í Afríku árið 2021. Sjúkdómurinn hægir á hagvexti og þróun og festir fólk í klóm fátæktar. 25.apríl er Alþjóðlegur dagur malaríu.

247 milljón tilfelli af malaríu voru skráð árið 2021.

Alþjóðlegur dagur malaríu
Ólafur Halldórsson hefur fjórum sinnum glímt við malaríu og haft betur.

Ólafur Halldórsson fékk malaríu fjórum sinnum á aðeins einu ári, nú síðast fyrir rúmum tveimur mánuðum. Ólafur, sem rekur munaðarleysingjahæli í nafni félagsskaparins Bjartrar sýnar í  Oyugis í Kenía, segir að fyrsta skiptið hafi verið verst. Það voru ekki síður úrelt lyf en veikin sjálf, sem settu strik í reikninginn.

„Ég var fluttur á sjúkrahús í héraðinu og gefið klóró-kínín. Ég var meðvitundarlaus í viku og þegar ég vaknaði þjáðist ég af aukaverkunum og var nánast blindur og heyrnarlaus.“

Hann var fluttur á betra sjúkrahús nær dauða en lífi, en lifði af.

Alþjóðlegur dagur malaríu
Börn eru 80% sem malaría grandar. Mynd: Björt sýn.

„Frá þeim tíma hef ég fengið veikina þrisvar til viðbótar. Nú þekki ég hins vegar einkenninn og hef birgt mig upp af réttum lyfjum. Maður tekur þrjá pillur og maður nær sér skjótt,“ segir Ólafur.

„Það er dapurlegt að þessi læknanlegi sjúkdómur drepur hundruð þúsunda. Og enn dapurlegra að margir þeirra sem deyja eru börn.“

Börn undir fimm ára aldri eru um 80% þeirra sem malaría dregur til dauða á Afríku-svæði WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.  .

Hluti Heimsmarkmiðanna

Alþjóðlegur dagur malaríu.
Malaría herjar af mestum ofsa á Afríku, en er einni landlæg í nokkrum öðrum heimshlutum. Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

Baráttan gegn malaríu er eitt þeirra atriða sem sett eru á oddinn í Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Markmiðið er að fækka dauðsföllum um að minnsta kosti 90% fyrir 2030. Jafnframt að útrýma malaríu í að minnsta kosti 35 ríkjum fyrir 2030 og koma í veg fyrir að hún skjóti upp kollinum að nýju, þar sem henni hefur verið útrýmt.

Hins vegar eru ótímabær dauðsföll ekki einu afleiðingar malaríu. Sjúkdómurinn veldur miklum efnahagslegum skakkaföllum og hindrar þróun í Afríku.

„Malaría og fátækt tengjast innbyrðis. Malaría er bæði orsök og afleiðing fátæktar. Hún er þrálátust í fátækustu ríkjum og samfélögum jarðar, sem eru föst í vítahring örbirgðar og vanheilsu,“ segir Jarðarstofnunin við Colombia-háskóla í New York.

Fyrir örfáa dali

Alþjóðlegur dagur malaríu.
Malaría er auðlæknanleg ef rétt er haldið á spilum. Mynd: Adoscam Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

„Lyfin kosta örfáa þúsundkalla en fólkið er svo fátækt að það hefur ekki ráð á þeim,“ útskýrir Ólafur Halldórsson.

„Það er ýmist of fátækt eða býr svo afskekkt að engin sjúkrahús eða læknar eru í nágrenninu.“

Malaría er lífshættulegur sjúkdómur sem berst til manna með biti sumra tegunda moskító-flugna. Hún er fyrst og fremst landlæg í hitabeltinu. Hægt er að koma í veg fyrir hana og hún er læknanleg.

Alþjóðlegur dagur malaríu.
Mynd: Björt sýn.

En þrátt fyrir það heldur malaría áfram að herja á fólk og grafa undan lífsviðurværi þess um allan heim. Einkenning geta verið mild eða lífshættuleg. Mild einkenni eru hiti, kuldaköst og höfuðverkur. Alvarleg einkenni eru örþreyta, rugl, flogaköst og öndunarerfiðleikar.

Börn undir fimm ára aldri, ófrískar konur, ferðamenn og fólk með HIV eða alnæmi eru áhættuhópi við að veikjast alvarlega.

Malarían berst með biti moskító-flugna en henni veldur sníkjudýr.

Þema Alþjóðlega malaríudagsins 2023 er “Tími til kominn að útrýma malaríu: fjárfestingar, nýsköpun, aðgerðir.”

Sjá einig hér og hér