Stöðugar framfarir í mannréttindum á Íslandi segir forsætisáðherra

0
687
Mynd: fastanefnd Íslands hjá SÞ í Genf.

Katrín Jakobsdóttir forsætisáðherra sagði að stöðugar framfarir væru í mannréttindamálum á Íslandi þegar hún ávarpaði vinnuhóp Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í dag. Vinnuhópurinn fór í saumana á mannréttindástandinu á Íslandi í almennri reglubundinni yfirferð í morgun.

Í ávarpi sem flutt var af myndbandi sagði Katrín að íslensk stjórnvöld hefðu leitast við að koma til móts við sjónarmið sem hefðu komið fram í fyrri yfirferðum ráðsins á mannréttindum á Íslandi. Þar á meðal væri ákvæði í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að setja á stofn öfluga, óháða mannréttindastofnun í samræmi við svokölluð Parísar-ákvæði

Skjáskot af ávarpi forsætisráðherra.

„Annað mikilvægt forgangsatriði er flutningur mannréttindamála frá dómsmálaráðuneyti íforsætisráðuneytið. Þar með eru bæði mannréttindi og jafnréttismál miðlæg í starfi ríkisstjórnar, sem greiðir fyrir því að þeirra gæti í öllum stjórnarathöfnum,“ sagði forsætisráðherra.

Athygli vekur að í ráðgjafarferli fyrir umfjöllun Mannréttindaráðsins leituðu íslensk stjórnvöld til barna og ungmenna, auk frjálsra félagasamtaka og stofnana. Nefndi forsætisráðherra sérstaklega Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

„Framlag barna og ungmenna var ómetanlegt. Þau kölluðu eftir aukinni athygli áhrifum loftslagsvárinnar á mannréttindi og vöktu athygli á auknum ójöfnuði og kröfðust aukins réttlætis í heiminum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

 Fjölmargar spurningar

Fulltrúar fjölmargra ríkja beindu spurningum til íslenskra stjórnvalda. Bryndís Hlöðversdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og fulltrúar nokkura fagráðuneyti sátu fyrir svörum með fjarfundarbúnaði.

Flestar spurningar og ráðleggingar ríkjanna snérust um framkvæmd alþjóðlegra mannréttindasamninga á Íslandi. Mörg ríki nefndu jafnrétti kynjanna og kynbundið ofbeldi, sérstaklega gegn konum af erlendum uppruna, auk mansals. Þá voru íslensk stjórnvöld innt eftir viðbrögðum við hatursáróðri og almennt um málefni hinsegin fólks, svokallaðs LGBTQI+ hóps. Þá ítrekuðu mörg ríki nauðsyn sérstakrar mannréttindastofnunar á Íslandi. Fram kom að slík stofnun væri ráðgerð, auk lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Flestir þátttakendur fluttu spurningar og athugasemdir með fjarfundarbúnaði og því voru fáir í fundarsal.

Þrjú ríki, Argentína, Finnland og Senegal, eru „rapporteurs“ og má búast við að samantekt um mannréttindayfirferð Íslands verði tilbúin á fimmtuag. Skýrslan verður tekin til endanlegrar umföllunar í Mannréttindaráðinu á föstudag.

Þetta er í þriðja skipti sem Ísland er til umfjöllunar í almennri reglubundinni yfirferð hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

 

Upptöku af yfirferð vinnuhóps Mannréttindaráðsins, þar á meðal ávarpi forsætisráðherra má sjá hér,  færslu um fundinn hér, auk texta ávarpsins hér.