Mansal: Enn langt í land

0
536
Mansal
Barnavinna í Bangladesh (ILO)

20.9 milljónir manna í heiminum eru fórnarlömb mansals í því skyni að þvinga til vinnu eða sæta kynferðislegri misnotkun að mati Alþjóða vinnumálastofnunarinnar. Þetta er álíka og samanlagður íbúafjöldi Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs.

Mansal eyðileggur milljónir lífa á hverju ári. Fólk er svipt réttindum sínum, draumar þess fótum troðnir og fórnarlömbin rænd mannlegri reisn. 30.júlí er Alþjóðlegur dagur gegn mansali.

Hvað er mansal?

Mansal í Serbíu
Mansal í Serbíu (UNODC)

 Mansal er glæpastarfsemi sem felst í verslun með manneskjur í hagnaðarskyni. Að ginna fólk, flytja, taka á móti og hýsa þá sem slíku sæta, telst einnig til mansals. Oft og tíðum er slegið ryki í augu fólks með gylliboðum um ábatasama atvinnu eða menntun, eða það þvingað. Fólk á öllum aldri er fórnarlömb mansals og það tíðkast um heim allan.

 

Skuggalegar tölur

 Tölur Alþjóða vinnumálastofnunarinnar sýna að 11.4 milljónir kvenna og 9.5 milljónir karla sæta þvingun til vinnu, þar af 5.5 milljónir barna.

Meirihluti þeirra sem sæta kynlífsþrælkun eru konur, en þær eru líka 35% af þeim sem þvingaðir eru til vinnu. Konur og börn eru því sérstaklega útsett fyrir mansali.

Í Afríku og Suður-Asíu snýst mansal mest um þvingaða vinnu, en í stærstum hluta Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku og suðaustur Asíu eru fleiri sem sæta kynlífsþrælkun.

 Áhyggjur aðalframkvæmdastjóra

Mansal António Guterres aðalframkvæmdastjóri Saminuðu þjóðanna lýsti þungum áhyggjum í ávarpi í tilefni af Alþjóðlegum degi gegn mansali. Þema dagsins í ár er „Notkun og misnotkun tækni.”

Guterres bendir á að tækni hafi gert fórnarlömbum mansals erfitt fyrir því þökk sé henni sé hægt að fylgjast stöðug með þeim. Þá sé hægt að dreifa efni af kynferðislegum toga um allt um hinn svokallaða „myrka vef.”

Að mati Fíkniefna- og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) þá nota glæpamenn netið í sívaxandi mæli til að hafa upp á fórnarlömbum.

Engu að síður leggur aðalframkvæmdastjórinn áherslu á að beita megi tækni til þess að bæta aðstæður þeirra sem höllustum standa fæti. Vissulega má beisla tækni í baráttunni til höfuðs mansali.

„Ríkisstjórnir, reglusmiðir, fyrirtæki og borgaralegt samfélag verða að taka höndum saman og virkja stefnumótun, lög og tæknilegar lausnir til að finna og styðja fórnarlömb, finna og refsa gerendum og tryggja öruggt og opið net fyrir alla.“

Herferð bláa hjartans

Mansal
Herferð bláa hjartans gegn mansali

 Fíkniefna- og glæpaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna hefur hleypt af stokkunum Bláa hjartanu. Bláa hjartað er herferð sem miðar að því að vekja fólk til vitundar um og berjast gegn mansali og áhrifum þess á samfélagið. Markmiðið er að virkja ríkisstjórnir, borgaralegt samfélag, atvinnulífið og einstaklinga og hvetja til aðgerða gegn þessum andstyggilegu glæpum og stuðnings við fórnarlömbin.

Bláa hjartað nýtur vaxandi viðurkenningar sem alþjóðlegt tákn um baráttuna gegn mansali. Því er ætlað að tákna sorg fórnarlamba og hið kalda hjarta þeirra sem kaupa og selja meðbræður sínar og systur.

Herferðin gerir fólki kleift að sýna samstöðu með fórnarlömbum mansals og auka sýnileika baráttunnar með því að festa bláa hjartað í barm sér.

Framlög til herferðar Bláa hjartans renna til sjóðs Sameinuðu þjóðanna til stuðnings fórnarlömbum mansala. Hann veitir brýna aðstoð og útvegar fórnarlömbum vernd, þökk sé  sérhæfðum samtökum um víða veröld.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Photo Credits:

Mansal í Serbíu (UNODC)

Barnavinna í Bangladesh (ILO)