Marsel: líf á flótta undan stríðum í Palestínu, Sýrlandi og Úkraínu

0
493
Saga flóttamanns
Með Nidal við hafið.

Marsel hefur rætur í þremur löndum: Palestínu, Sýrlandi og Úkraínu. Þrjár kynslóðir fölskyldu hans hafa verið á flótta. Síðasta stopp: París.

Marsel var í hópi fjölda Sýrlendinga sem komu til Frakklands 2016, fimm árum eftir að stríðið hófst. Hann þurfti þó ekki að fara fótgangandi yfir hálfa Evrópu eins og sumir, eða hætta lífi sínu með því að fara sjóleiðina. Þökk sé úkraínsku vegabréfi gat hann einfaldlega flogið. „Fjölskylda mín á rætur að rekja til þriggja landa en samt get ég ekki búið í neinu þeirra.”

saga flóttamanns
Marsel og Ludmial móðir hans.

Fyrir nokkrum vikum tókst móður hans Ludmila að komast frá Úkraínu til móts við son sinn í París.

Marsel brosir breitt og hefur ekki yfirbragð þjáðs flóttamanns. Og hann segir sjálfur að hann hafi notið hamingjusamrar barnæsku og kvartar ekki yfir lífinu nú þegar hann er kominn á fertugsaldur. En saga hans er í raun í hnotskurn saga átaka sem staðið hafa yfir í næstum heila öld.

Frá Palestínu til Sýrlands

Mohamed Zaki Abdo, afi Marsels, flúði heimaborg sína Jaffa árið 1948 þegar Ísraelsríki var stofnað. Afinn var stöndugur kaupmaður og fjölskyldan kom sér fyrir í stórri íbúð í miðborg Damaskus í nágrannaríkinu Sýrlandi á fínni breiðgötu sem hann segir hafa verið „álíka og Champs Elysées.”

Saga flóttamanns
Marsel með föður sínum

Mohammed Zaki ól börn sín upp þar með það fyrir augum að snúa aftur heim til föðurlands síns, Palestínu. Í millitíðinni vildi hann fjárfesta í menntun barnanna. Nabíl, sonur hans og faðir Marsels, stundaði vélaverkfræðinám í Donbas í Úkraínu. Þar hitti hann konuefni sitt, Ludmila Leonova samstúdent í vélaverkfræðinni.

Eftir að námi lauk 1988 héldu hjónaleysin Nabil með sínar palestínsk-sýrlensku rætur og Ludmila frá Úkraínu til Damaskus. Fölskyldan var andsnúin útlendingnum „Rússanum” og þau urðu að setjast að í mun fátækara hverfi, Yarmou, þar sem palestínskir flóttamenn hafa komið sér fyrir. Marsel er annar sonur Nabils og Ludmila og fæddist 1992.

„Ég á bara góðar minningar úr æsku. Við bræðurnir vorum spilltir af eftirlæti. Við fluttum nokrum sinnum, en faðir minn var háskólakennari. Hann gegndi eftirsóttum stöðum og móðir mín helgaði sig okkur og kenndi píanóleik.”

Í skólum Sameinuðu þjóðanna

Saga flóttamanns
Einn af skólum UNRWA 1984

 „Alla mína æsku var ég í skólum á vegum Palestíuflóttamannahjálparinnar (UNRWA). Á þeim tíma voru það bestu skólarnir í Damaskus. Við höfðum nægt pláss, tilraunastofur fyrir efnafræði, vel búnar teiknistofur og um fram allt palestínska kennara sem voru metnaðargjarnir í starfi. Vel menntaðir Sýrlendingar öfunduðu okkur og hefðu viljað koma börnum sínum að í þessum skólum,” segir Marsel.

Barn að aldri lærði Marsel að leika á píanó og gítar. Hann tók þátt í leiksýningum og fór í leikhús með foreldrunum. Hann lærði leik og klassískan dans í 9 ár og var barnaleikari. Hann lék í 25 auglýsingum frá átta til sextán ára aldurs og í sjónvarpsþáttum sem notaðir voru sem kennsluefni um öll Mið-Austurlönd. Eftir súdentspróf hóf hann nám í arkítektúr. Hann var í hópi tíu hæstu þegar hann útskrifaðist sjö árum síðar.

Stríðið í Sýrlandi

Tjaldbúðir fyrir flóttamenn
Tjaldbúðir fyrir flóttamenn. Mynd: UN News

En stríð braust út 2011. „Fyrsta árið var stríðið í fjarska. Þá brutust út átök í okkar hverfi í Damaskus. Við urðum að yfirgefa íbúðina okkar og setjast upp á frænku mína í miðborginni. Ég hélt áfram námi en faðir minn fór um þetta leyti að sýna fyrstu merki Alzheimers-sjúkdómsins.“

Faðirinn var veikur, stríð geisaði og lítil von virtist vera um góða framtíð. Eldri bróðir Marsels var kominn til Frakklands og var búinn að vera í sambandi við franska konu um langt skeið þegar hér var komið sögu.

„Enn einu sinni var komið strið og fjölskyldan varð að flýja á ný. Við ákváðum að pabba og mömmu væri best borgið í Úkraínu. Pabbi hafði aldrei viljað sækja um úkraínskan ríkisborgararétt því hann vonaðist til að snúa aftur til Palestínu. Þetta var öruggast en ekki auðvelt. Alzheimer var farið að vera pabba fótur um fjöt. Hann gat ekki séð um sig sjálfur. Hann gat ekki þvegið sér, nært sig eða gert nokkurn skapaðan hlut. Ferðin var honum því mjög erfið. Fara varð um Líbnaon. Loks komust þau á leiðarenda í Bila Tserkva suður af Kyiv. Pabbi þoldi ekki breytinguna og lést nokkrum mánuðum síðar.“

Saga flóttamanns
Marsel í París.

Marsel fór frá Damaskus í kjölfar brottfarar foreldra sinna. Hann gat einfaldlega flogið til Frakklands frá Líbanon og veifað úkraínska vegabréfið við komuna. Hann innritaðist í háskóla í Grenoble og fór í framhaldsnám í borgararkítektúr. Hann hefur búið í París síðan 2017 og þekkir borgina eins og lófann á sér. „Ég held ég þekki borgina, torgin, veitingahúsin – allt -jafnvel betur en innfæddir Parísarbúar. Ég hef líka ferðast landshorna á milli í Frakklandi og heimsótt 21 Evrópuríki frá 2016.”

Stríð í Úkraínu – ný útlegð

 Móðir hans flutti til Úkraínu og lifði á lágum eftirlaunum, andvirði 6 þúsund króna á mánuði. Synirnir sendu henni fé til þess að hún gæti dregið fram lífið. 24.febrúar braust stríðið út. Fjórum dögum eftir innrás Rússa flúði hún heimabæ sinn Bila Tserkva

Eyðilegging í Úkraínu
Eyðilegging í Úkraínu

Það tók hana fjóra daga að komast til Parísar eftir langa bið á landamærum Úkraínu og Ungverjalands og síðan á brautarstöðinni í Búdapest.

Hún er nú í París. „Mér tókst að finna húsaskjól fyrir hana hjá vinum sem eru oft fjarverandi. Í íbúðinni er það sem hún þarfnast helst…píanó,” segir Marsel. ”Á fáum dögum tókst að fá pappíra og aðstoð frá ríkinu. Mér er minnistætt þegar sýrlenskir vinir mínir komu hingað, þeir fengu ekki sömu fyrirgreiðslu.”

Marsel er núna verkefnisstjóri á arkitektastofu. Áður vann hann í nokkur ár við innanhússhönnun og uppsetningu viðskiptasýninga.

Hann hefur aldrei skort vinnu og ekki þurft að sætta sig við stöðu flóttamanns. Hann hefur gilt landvistarleyfi frá námsárum og síðan í krafti vinnu eftir að hann fór á vinnumarkaðinn, en hann segist svitna í hvert sinn sem komið er að endurnýjun.

Nú er hann sem verkefnisstjóri að vinna að hönnun skóla í nágrenni Parísar. „Ég tala arabísku og rússnesku, mál foreldra minna, en auk þess tala ég ensku og frönsku. Þar af leiðandi tala ég 4 af 6 opinberum málum Sameinuðu þjóðanna. Ég er barn alþjóðlegrar samstöðu.”

Marsel vildi gjarnan hanna skóla fyrir flóttamenn, þar sem börn þeirra myndu læra, leika og blómstra eins og önnur börn. Og gefa til baka það sem Sameinuðu þjóða-skólarnir á vegum UNRWA gáfu honum.