Matvæladreifing hefst á ný í Khartoum

0
111
Matvæladreifing í Omdurman nærri Kharthoum. ©Rauði hálfmáninn í Súdan.
Matvæladreifing í Omdurman nærri Kharthoum. ©Rauði hálfmáninn í Súdan.

Átök í Súdan. Mannúðarstarfsmönnum hefur tekist að koma matvælum til nauðstaddra í Kharthoum, höfuðborg Súdans í  fyrsta skipti frá því átök brutust út fyrir meir en hálfum öðrum mánuði.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) skýrði frá því að tekist hefði að koma matvælaaðstoð til fjölskyldna sem eru fastar í miðju átakanna í Khartoum.

Eddie Rowe forstöðumaður WFP í Súdan sagði fréttamönnum að þetta væru mikil vatnaskil. Mat hefði verið komið til 15 þúsund manns beggja vegna víglínunnar á milli stjórnarhersins og vígasveita RSF sem hafa borist á banaspjót frá 15.apríl.

Matvæladreifingin hófst á laugardag í Omdurman, sem er hluti af höfuðborgarsvæði Khartoum.

Hröð aukning aðstoðar

Matvæladreifing hófst á laugardag. ©Rauði hálfmáninn í Súdan.
Matvæladreifing hófst á laugardag. ©Rauði hálfmáninn í Súdan.

Í allt hefur WFP tekist að koma matvælaaðstoð til 725 þúsund manns í 13 fylkjum landsins. Stofnunin hóf starf að nýju 3.maí eftir að það lá niðri í kjölfar dráps þriggja hjálparstarfsmanna í upphafi átakanna.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir að fleiri börn þurfi á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda í Súdan en nokkru sinni áður. Alls þurfa 13.6 milljónir barna á brýnni aðstoð að halda. „Það er meir en íbúafjöldi ríkja á borð við Svíþjóð, Portúgal eða Rúanda,“ að sögn James Elder, talsmanns UNICEF í Genf.