Nærri hálf milljón barna komin á vergang í Súdan

0
137
Óttast er að tvær milljónir manna verði hungri að bráð, ef ekki er að gert.
Óttast er að tvær milljónir manna verði hungri að bráð, ef ekki er að gert. Mynd: WFP/Peter Louis

Súdan. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur tvíeflt mannúðaraðstoð sína í þágu barna sem líða fyrir átökin í Súdan. Nú er talið að 82 þúsund börn hafi flúið til nágrannaríkjanna en 368 þúsund börn hafa flosnað upp frá heimilum sínum og eru á vergangi innanlands.

Að sögn UNHCR, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hafa 164 þúsund manns flúið land frá 15.apríl. Fólkið hefur leitað hælis í Mið-Afríkulýðveldinu, Tsjad, Egyptalandi, Eþíópíu, Lýbíu og Suður-Súdan.  Að auki telur IOM , Alþjóðlega fólksflutningastofnunin, að 736 þúsund hafi bæst í hóp þeirra sem eru á flótta innanlands. Sá fjöldi bætist í hóp hvorki meira né minna en 3.8 milljóna sem þegar voru á faraldsfæti áður en síðasta hrina átaka hófst.

„Grimmileg átök í Súdan hafa komið hart niður á börnum landsins,“ segir Catherine Russell forstjóri UNICEF.

Aðstoð UNICEF í Súdan

UNICEF hefur í þessari viku komið vatnsbirgðum og heinlætisbirgðum til Port Sudan og eru fleiri birgðasendingar væntanlegar á næstu dögum.

UNICEF starfar einnig náið með ríkisstjórnum landa í heimshlutanum og samstarfsaðilum í nágrannaríkjum til að efla lífsnauðsynlega aðstoð við veikburða börn.

  • Drykkjarvatni er komið til fólks með vatnsflutningabílum, vatnsból hreinsuð, borað eftir vatni og gert við eldri borholur.
  • Næringarþjónusta við börn yngri en fimm ára sem þjást af alvarlegri vannæringu.
  • Læknisþjónusta, greining, bólusetning, nauðsynleg lyf og hjúkrunarpakkar til að tryggja aðgang að lágmarks heilsugæslu.
  • Barnavernd og varnir og viðbrögð við kynbundnu ofbeldi.
  • Menntunarþjónusta til að tryggja að flóttamenn, fólk sem snýr aftur heim og börn í viðtökuríkjum fái aðgang að gæðamenntun.

UNICEF hvetur alþjóða samfélagið til að styðja viðleitni Barnahjálparinnar til að takast á við vaxandi neyðarástand með auknum fjárstuðningi og úrræðum.

Almenningur getur einnig lagt sín á vogarskálarnar. Sjá UNICEF á Íslandi Neyðarákall fyrir börn í Súdan hér