Sameinuðu þjóðirnar efna til ráðstefnu um hjálparstarf í Afganistan

0
710
Afganistan
Martin Griffiths ræðir við forystu Talibana. Mynd: OCHA.

Sameinuðu þjóðirnar hafa boðað til alþjóðlegrar ráðstefnu um hjálparstarf í Afganistan 13.september næstkomandi í Genf.

„Afgönsk börn, konur og karlar þurfa nú, meir en nokkru sinni fyrr, á stuðningi og samstöðu að halda af hálfu alþjóða samfélagsins,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Talið er að helmingur afgönsku þjóðarinnar þurfi á aðstoð að halda en Afganir eru um 38 milljónir talsins.

Markmið ráðstefnunnar er að safna fé til að standa straum af hjálparstarfi og aðstoð við nauðstadda Afgani. Guterres varaði við því að neyðarástand blasti við ef ekki yrði að gert. Sameinuðu þjóðirnar fóru fram á fjárveitingar fyrr á árinu að upphæð 1.3 milljörðm Bandaríkjadala. Aðeins tókst að safna 40% þeirrar upphæðar.

„Aðeins þriðji hver Afgani veit hvar þeir fá næstu máltíð“,“ segir Stéphane Dujarric talsmaður aðalframkvæmdastjórans. „Búist er við að nærri helmingur barna undir fimm ára aldri þjáist af bráðri vannæringu á næstu tólf mánuðum.“

Framkvæmdastjóri ræðir við Talibana

Martin Griffiths framkvæmdastjóri mannúðarmála og hjálparstarfs hjá Sameinuðu þjóðunum er í Kabúl. Hann hefur átt viðræður við Mullah Baradar og aðra forystumenn Talibana undanfarna daga. Griffiths hefur lagt áherslu á þá skuldbindingu alþjóða samfélagsins að koma mannúðaraðstoð til milljóna þurfandi einstaklinga á hlutlausan og óháðan hátt.

 

Hann hvatti til þess að allir óbreyttir borgarar, sérstaklega, konur, stúlkur og minnihlutahópar, nytu verndar.