Námur í stað veiða?

0
422
Rax

Rax

Kastljósinu var beint að Grænlandi í opinberum umræðum á vegum Sameinuðu þjóðanna að lokinni sýningu myndarinnar Síðustu dagar heimskautsins í Brussel.

Þetta er mynd sem Saga film gerði um íslenska ljósmyndarann góðkunna, Ragnar Axelsson. Ragnar hefur ferðast til Grænlands nánast árlega í þrjá áratugi, oftar en ekki fyrir Morgunblaðið en myndir sínar fyrir blaðið hefur hann merkt með upphafsstöfunum RAX  

RAX tók þátt í umræðum um myndina fyrir fullu húsi (300 manns og a.m.k. jafnmargir á biðlista) í Goethe stofnuninni í Brussel. Með honum í umræðunum voru franski fræðimaðurinn Dr. Damien Degeorges frá the Arctic Policy and Economic Forum og Lida Skifte Lennert, forstöðumaður fastanefndar Grænlands hjá Evrópusambandinu en þeim stýrði Árni Snævarr.

Umræðurnar snerust ekki síst um afleiðingar þess að jöklar Grænlands hopa og ísinn bráðnar á Norðurskautinu. Aldagömlum hefðum Grænlendinga er ógnað en á sama tíma opnast möguleikar á námagreftri og borun eftir olíu og gasi.

RAX sagðist skilja vel áhuga Grænlendinga á að grípa tækifærin en að á sama tíma hefði hann áhyggjur af hlutskipti veiðimanna sem óttuðust nú að sjá þúsund ára gamlar hefðir hverfa. “Veiðimenn norðursins eru tegund í útrýmingarhættu. Þetta er sósetur þessa samfélags,” segir RAX.

Grænland hefur heimastjórn frá árinu 2009 en er enn sem fyrr í ríkjasamandi við Danmörku. Grænland er fjórum sinnum stærra en Frakkland en íbúarnir eru aðeins 58 þúsund. Með sáttmálanum við Dani frá 2009 eru Grænlendingum tryggð yfirráð yfir náttúruauðlindum sínum auk heimastjórnar. Þessu til viðbótari er þeim gefinn kostur á að lýsa yfir fullu sjálfstæði ef tekjur af námagreftri og olíuvinnslu tryggir þeim fjárhagslegt sjálfstæði frá Danmörku.

Grænland er talið búa yfir miklum auðæfum sem liggja í málmgrýti í jörðu og olíu og gasi á hafsbotni í lögsögu eyjarinnar. Evrópusambandið og Kína hafa þegar lýst miklum áhuga á svokölluðum sjaldgæfum jarðmálmum („rare earths”) sem er flokkur málma sem eru eftirsóttir  í ýmiss konar “græna tækni”.

Danska þingið hefur nú til umfjöllunar breytingar á innflytjendalögum (sem enn heyra undir Dani) til að greiða fyrir því að allt að fimm þúsund útlendingar (sennilega Kínverjar) fái að vinna á Grænlandi við að reisa álverksmiðju og hefja námagröft.

Lennert fulltrúi Grænlendinga í Brussel sagði á fundinum í Brussel að Grænlendingar væru ekk hræddir við hina 1.3 milljarða Kínverjar þótt þeir væru aðeins 58 þúsund. “Við viljum sjálfbæra þróun og við höfum leitað fyrir okkur á alþjóða vísu um fjárfestingar í vinnslu náttúruauðlinda okkar,” sagði Lennert. “Nú hafa alþjóðlegir samstarfsaðilar gefið sig fram og það sem er mikilvægast að hafa í huga er að þeir munu taka þátt í okkar þróun á okkar skilmálum. Við setjum skilyrðin og þeir hlýta þeim.”

Lögin sem greiða leiðina fyrir erlendu vinnuafli voru samþykkt með miklum meirihluta  á grænlenska þinginu en hafa valdið klofningi í flokki Kuupik Kleist, forsætisráðherra. Nýr flokkur “Partii Inuit” vill þjóðaratkvæðagreiðslu um málið áður en leyfi verða gefin fyrir námagreftri. Foringi flokksins Nikku Olsen segist berjast vilja vernda Inúita og gildismat þeirra. “Þessar ákvarðanir hafa allar verið teknar með gróðasjónarmið í huga og stefna Naalakkersuisuts (ríkisstjórnar Grænlands) er yfirborðsleg og lítt ígrunduð,” segir Olsen og bendir á mikið atvinnuleysi og  sífellt meiri húsnæðisvanda sem vandamál sem fallið hafa í skuggann að sögn blaðsins Sermitsiaq. “Við sjáum ekki að miklar breytingar verði í samfélaginu hvað sem námum og olíuborun líður. Mörgum spurningum hefur ekki verið svarað og margt ekki verið skýrt nógu vel,” segir Nikku Olsen.