Náttúran er að senda okkur skýr skilaboð

0
681
Alþjóða umhverfisdagurinn
Sebrahestur á beit

COVID-19 faraldurinn er alvarleg áminning til okkar allra um að hlúa að nátturunni og jafnframt minnir hann okkur á hversu nátengd heilbrigði okkar er heilsu plánetunnar.

Alþjóða umhverfisdagurinn
Tími fyrir náttúruna – sýn franska listamannsins Elyx.

Kórónaveirur berast frá dýrum til manna og rannsóknir sýna að sjúkdómar af þessu tagi munu aukast ef við grípum ekki í tauman og setjum náttúruna í forgang.

 5.júní er Alþjóðlegi umhverfisdagurinn og þema hans að þessu sinni erTími fyrir náttúruna.”

 Það hefur aldrei verið brýnna en nú að stöðva útdauða tegunda og misþyrmingu náttúrunnar. Ekki einu sinni á tímum heimsfaraldurs megum við missa sjónir af þessum málefnum, enda eru þau nátengd. Okkur ber að gefa okkur tíma fyrir náttúruna til þess að hindra faraldra í framtíðinni, fjölda útdauða jurta- og dýrategundna og aðrar hamfarir.

„Náttúran er að senda okkur skýr skilaboð,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins. „Eldar, flóð, þurrkar og ofviðri eru sífellt algengari og skaðvænlegri. Höfin hitna og súrna og vistkerfi kóralrifja skaðast. Og nú herjar ný kórónaveira á okkur og grefur undan heilbrigði og lífsviðurværi. Til þess að hlúa að mannkyninu VERÐUM við að hlúa að náttúrunni.“

Milljón í útrýmingarhættu

Ein milljón jurta- og dýrategunda eru í útrýmingarhættu og sumar gætu verið horfnar innan áratugar. Hver einasta tegund hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því að viðhalda stöðugum, heilbrigðum vistkerfum. Útdauði tegunda getur leitt til margs konar hamfara, þar á meðal aukin útbreiðsla smitandi sjúkdóma og veira. Vísindamenn spá því að ef við breytum ekki afstöðu okkar til villtrar náttúru aukist líkurnar á veirusýkingum á borð við COVID-19.

En við höfum enn möguleika á því að snúa við blaðinu og hindra að fjölbreytni lífríkisins minnki með því að breyta hegðun okkar og tengslum við náttúruna. Viðbrögð heimsins við COVID-19 hefur sýnt og sannað að við getum staðið saman gegn vá sem ógnar samfélögum okkar.

Alþjóða umhverfisdagurinn
Allar tegundir hafa hlutverki að gegna.

„Nú þegar við endurbyggjum samfélög okkar ættum við að endurbæta þau og setja náttúruna á þann stað sem hún á skilið – í forgrunn allra ákvarðana,“ segir Guterres.

Notið myllumerkið #ForNature á samfélagsmiðlum og deilið skoðunum ykkar um hvað þið teljið að okkur beri að gera á nú þegar það er „Tími fyrir náttúruna“.

Sjá nánar hér um allt sem þú getur gert í þágu náttúrunnar.

Sjá nánar um Alþjóða umhverfisdaginn hér.