Nauðsyn jöfnuðar – Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 2022

0
339
Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1.desember
Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1.desember

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn. Á hverju ári er haldið upp á Alþjóðlega alnæmisdaginn 1.desember. Þá sameinast fólk til stuðnings þeim sem lifa með HIV og minnast þeirra sem látist hafa af völdum alnæmis. Á alnæmisdaginn hvetur Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna alla til að ráðast til atlögu við þann ójöfnuð sem hindrar baráttuna við að uppræta alnæmi.

„Við getum bundið enda á alnæmi, ef við upprætum þann ójöfnuð sem viðheldur sjúkdómnum. Koma þarf þeim boðskap á framfæri að það er öllum í hag að ráðast gegn ójöfnuði,“ segir Winnie Byanyima forstjóri UNAIDS. „Við þurfum á auknum jöfnuði að halda til þess að tryggja öryggi og vernda heilsu okkar allra.“

Nauðsyn jöfnuðar

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1.desember Fjórum áratugum eftir að baráttan gegn HIV hófst, ríkir enn ójöfnuður hvað varðar aðgang að prófum, meðferð og vernd, að ekki sé minnst á nýjustu tækni.  Þá bendir núverandi þróun ekki til þess að þeim markmiðum sem samþykkt hafa verið á heimsvísu um baráttuna gegn alnæmi, verði náð. Engu að síður sýnir ný skýrsla UNAIDS, Hættulegur ójöfnuður (Dangerous Inequalities) fram á að með brýnu átaki gegn ójöfnuði er enn hægt að koma baráttunni á rétta leið.

Tölur frá UNAIDS sýna að sökum COVID19-19 og annara áfalla undanfarin tvö ár, hefur árangurinn í baráttunni gegn HIV-faraldrinum stöðvast, fjárveitingar minnkað og af þeim ástæðum eru milljónir mannslífa í hættu.

 Hindrar upprætingu alnæmis-faraldursins

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1.desember

Þar sem HIV er landlægt er konum sem sæta heimilisofbeldi helmingi hættara við að fá HIV en annars staðar. Á tímabilinu 2015 til 2021 gátu aðeins 41% giftra kvenna á aldrinum 15-24 ára tekið eigin ákvarðanir um frjósemisheilbrigði sitt.

Áhrif kynbundins ójöfnuðar á hættu kvenna á að smitast af HIV er sérstaklega áberandi í Afríku sunnan Sahara. Þar voru 63% nýrra HIV smita 2021 á meðal kvenna. Unglingsstúlkur og ungar konur (15-24) voru þrisvar sinnum líklegri til að smitast af HIV en drengir og ungir karlar á sama aldri í Afríku sunnan Sahara.

Ein rannsókn sýnir að ef stúlkum er gert kleift að ljúka framhaldsskóla minnka líkurnar á að smitast af HIV um 50%. Leiðtogum ber að tryggja að allar stúlkur njóti skólagöngu og hafi einhverja efnahagslega leiðir til að treyggja þeim vongóða framtíð. Þá ber að vernda þær fyrir ofbeldi, þar á meðal snemmbærum hjónaböndum sem oft eru ávísun á slíkt.

HIV-smitum fjölgar þar sem þeim hafði fækkað

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1.desember

Framfarir í forvörnum og meðferð hafa stöðvast víða um heim og milljónir manna eru í lífshættu. Árlegar tölur um HIV-smit hafa hækkað í Austur-Evrópu og Mið-Asíu, Suður-Ameríku, Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Á öllum þessum svæðum hafði HIV smitum fækkað mörg undanfarin ár. Tölur UNAIDS sýna að í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu hefur HIV-smitum fjölgað þar sem þeim hafði fækkað.

Aðgerðir til að draga úr þeim ójöfnuði sem keyrir alnæmi áfram er þörf til að koma í veg fyrir milljónir nýrra HIV-smita á þessum áratug og til að binda enda á alnæmis-faraldurinn.

Vissir þú?

Hvað er HIV? HIV-veiran er talin sýkja þýðingarmiklar frumur í mannslíkamanum sem hindra að líkaminn geti sem fyrr varist tilteknum sýklum. Með þessu veikist ónæmiskerfið og sjúklingar veikjast af ýmsum sjúkdómum.

Hvað er alnæmi? Þegar ónæmiskerfið hefur veikst með þessum hætti er talað um sjúkdóminn sem alnæmi. Alnæmi er AIDS á ensku eða acquired immune deficiency syndrome.

Hvað er UNAIDS? UNAIDS leiðir alheimsbaráttuna til að binda enda á alnæmi sem ógn við lýðheilsu fyrir 2030. Þetta er hluti af Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. UNAIDS sinnir stefnumótun, málsvörn, samræmingu og tæknilegri aðstoð sem þörf er til að efla og tengja forystu ríkisstjórna, einkageirans og samfélaga til að útvega HIV tengda þjónustu.

Nánari upplýsingar má finna hér, hér, hér og hér.