Neyðarástand: 240 þúsund í skjóli SÞ á Gasa

0
447

Gazaschool

1.ágúst 2014. 240 þúsund manns dvelja nú við síversnandi aðstæður í húsnæði Sameinuðu þjóðanna á Gasaströndinni.

UNRWA, stofnun Sameinuðu þjóðanna sem sér um palestínska flóttamenn hefur nú beðið um tafarlausa fjárhagsaðstoð til að mæta ástandinu. Auk þessa mikla fjölda fólks sem leitað hefur skjóls, hafa 97 mannvirki UNRWA skemmst. Þar á meðal eru heilsugæslustöðvar og skólar sem notaðaðir hafa verið sem húsaskjól fyrir fólk á flótta undan átökunum.

Venjulega skýtur UNRWA skjólshúsi fyrir 2 þúsund manns en á þeim fjórum vikum sem átök hafa staðið yfir hafa 240 þúsund leitað skjóls.

„Ástandið fer síversnandi,“ sagði Pierre Krähenbühl, forstjóri UNRWA þegar hann lýsti ástandinu fyrir fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær með aðstoð fjarfundabúnaðar.

„Það er ekkert vatn til að sinna hreinlæti hvers og eins, örfáar sturtur og salernisaðstaða er algjörlega ófullnægjandi. Sjúkdómar eru að breiðast út og má nefna húðsjúkdóma og kláðamaur. Þúsundir ófrískra kvenna hafast við í skólahúsnæði okkar og hafa fætt börn við frumstæðar aðstæður. Við þurfum að sinna nýburum við þessar ömurlegu aðstæður. Við eigum vitaskuld erfitt um vik vegna áframhaldandi átaka.“
Heildarfjöldi þeirra sem flosnað hafa upp innan Gasa-svæðisins er kominn í 440 þúsund eða um 24% af íbúafjöldanum. Þeir sem ekki hafa leitað á náðir Sameinuðu þjóðanna, hafa leitað skjóls í stjórnarbyggingum, spítalasvæðum eða hjá fjölskyldu og vinum.
Ástandið fer síversnandi og vopnahlé standa oftast mun skemur en til stendur.

„Fólk flýr þangað sem það telur sig vera óhult frá árásum en sífellt verður erfiðara að finna slíka griðastaði,“ sagði Valerie Amos, aðstoðarframkvæmdastjóri SÞ á sviði mannúðaraðstoðar á fundi Öryggisráðsins í gær.
„Af þessum sökum leitar fólk til Sameinuðu þjóðanna í von um að hjá þeim sé að finna skjól þegar ráðist er á heimili þeirra og hverfi. En ráðist hefur verið á meir en 103 byggingar Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal skóla UNRWA sem hýstir 3 þúsund manns, á miðvikudag,” sagði hún.

Eina orkuver Gasa hefur skemmst verulega. Talið er að þetta hafi för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir útvegun matvæla og aðgang að lágmarksþjónustu. Búist er við meira rafmagnsleysi á Gasa og verður rafstraumur á í einungis tvær stundir á dag í Gasaborg þar sem UNRWA hýsir 49 þúsund manns. Algjörlega rafmagnslaust verður á miðsvæði Gasa þar sem 23 þúsund hafast við í skólum UNRWA.

Af þessum sökum hefur UNRWA gefið út ákall um aukafjárveitingar að uppæð nærri 188 millónum Bandaríkjadala til að standa straum af neyðaraðstoð. Hluti fjárins mun renna til viðgerða og viðreisnarstarfs þegar sér fyrir endann á átökum.