Ný afbrigði munu verða til uns sigur vinnst á veirunni

0
715
UN Women/ Prashanth Vishwanathan

Ekkert lát er á útbreiðslu COVID-19 í heiminum og hefur jafnt tilfellum sem og dauðsföllum fölgað. Dauðsföllum fjölgaði um 80% síðastliðinn mánuð í Afríku. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur að ný afbrigði af COVID muni skjóta upp kollinum svo lengi sem útbreiðsla veirunnar sé ekki stöðvuð.

Útbreiðsla hins bráðsmitandi Delta-afbrigðis á mesta sök á fjölgun tilfella. Afbrigðið hefur nú greinst í 132 ríkjum.

Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) var tilkynnt um nærri 4 milljónir nýrra tilfella í síðustu viku. Stofnunin býst við að fjöldi nýrra tilfella fari yfir 200 milljónir á næstu tveimur vikum.

„Í raun vitum við að þetta er vanmat,“ segir Tedros Adhanom Gebreyesus forstjóri WHO.

Varað við nýjum afbrigðum frá upphafi

Tedros telur að fjölgun tilfella megi rekja til aukinna samskipta og hreyfinga fólks, misskiptingar bólusetninga og ósamkvæmni í félags-og lýðheilsu aðgerðum. Hann sagði að ávinningur sem náðst hefði með erfiðismunum hefði glatast eða væri stefnt í voða. Heilbrigðiskerfi margra ríkja væri að kikna undan álagi.

„WHO hefur allt frá upphafi varað við því að COVID-19 veiran væri stöðugt að breytast. Hingað til hafa fjögur afbrigði greinst og þeim mun fjölga svo lengi sem veiran heldur áfram að breiðast út,“ sagði hann.