Ný skýrsla um þróunarmarkmið sýnir misgóðan árangur

0
425
alt

23. júní 2010 – Ríki heims þokast nær því að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun þrátt fyrir efnahagslegan samdrátt. Þeim miðar hins vegar áfram of hægt til þess að markmiðunum verði náð fyrir 2015, eins og stefnt er að, og því er sérstaks átaks þörf. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um Þúsaldarmarkmiðin.  

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kynnti í gær (23. júní) árlega skýrslu þar sem mat er lagt á stöðuna. Þar kemur fram að gríðarlegur árangur hefur náðst í að uppræta örbirgð, berjast gegn HIV/Alnæmi, malaríu og öðrum sjúkdómum  og auka aðgang að hreinu vatni. Á hinn bóginn er lengra í land með að ná markmiðum á borð við bætta heilsu mæðra og að auka hreinlæti.

alt

Ban tekur (í gær 23. júní) á móti opnu bréfi um að binda enda á fátækt í heiminum fyrir 2015 frá samtökunum Global Call to Action Against Poverty (GCAP). SÞ-mynd: Evan Schneider.

Ban sagði á blaðamannafundi í New York að veraldarleiðtogar verði að beita sér á mörgum vígstöðvum: skapa störf, glæða hagvöxt, efla fæðuöryggi, auka hreina orku og bæta samstarf á milli ríkra og fátækra ríkja í þágu þeirra sem standa höllustum fæti í heiminum.

 “Efnahagsleg óvissa má ekki verða skálkaskjól til að draga úr þróunarstarfi okkar,” sagði framkvæmdastjórinn. “Hún er þvert á móti ástæða til að bæta í. Við fjárfestum í hagvexti á heimsvísu með því að fjárfesta í Þúsaldarmarkmiðunum. Með því að beina sjónum okkar að þeim sem standa höllustum fæti, leggjum við hornstein að aukinni sjálfbærni og velmegun í framtíðinni.”

Framkvæmdastjórinn tilkynnti að hann hefði skipað hóp 17 núverandi og fyrrverandi stjórnmálamanna, atvinnurekenda og hugsuða alls staðar að úr heiminum til að vinna að framgangi Þúsaldarmarkmiðanna.

Paul Kagame, forseti Rúanda og José Luis Rodríguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar munu stýra hópnum í sameiningu. Fyrsti fundur hópsins verður í næsta mánuði, tveimur mánuðum áður en veraldarleiðtogar hittast að máli í höfðustöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til að finna leiðir til að flýta framgangi Þúsaldarmarkmiðanna.  

Skýrslan um stöðu Þúsaldarmarkmiðanna byggir á upplýsingum frá 25 stofnunum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum samtökum. Niðurstöður hennar benda til að fjöldi þeirra sem búa við sárafátækt eða örbirgð hafi fækkað hlutfallslega á síðustu tveimur áratugum. Skilgreining þess að búa við örbirgð er að lifa á minna en 1.25 Bandaríkjadal á dag.

Ef miðað er við árið 1990 hefur hlutfall þeirra sem búa við örbirgð minnkað úr 46 prósent um jarðarbúa í 27 prósent árið 2005. Búist er við að tala þeirra sem búa við sárustu fátæktina minnki um fimmtán prósentustig árið 2015, þökk sé, fyrst og fremstm,  framþróun í Kína, Suður og Suð-austur Asíu.

En þrátt fyrir áframhaldandi árangur í baráttunni gegn hungri á tímum efnahags samdráttar og nýlegrar fæðukreppu, kemur skýrt fram í skýrslunni að hungur og vannæring færast í aukana í sumum heimshlutum, eins og Suður-Asíu og bilið á milli ríkra og snauðra og þéttbýlis og dreifbýlis er viðvarandi.

Stúlkur fá heldur ekki sömu tækifæri og drengir, sérstaklega í menntun. Fjórum sinnum líklegra er að drengir en stúlkur á fátækustu heimilunum gangi í skóla. 

Ríki í Suður-Ameríku og við Karíbahaf hafa náð verulegum árangri í viðleitni sinni til að bæta heilsu barna og auka jafnrétti kynjanna. Hins vegar njóta færri en helmingur kvenna í Afríku aðstoðar faglærðs heilsugæslufólks við fæðingar.

Skýrslan um Þúsaldarmarkmiðin var gefin út fyrir fund 8 og 20 helstu iðnríkja heims sem haldnir í Toronto í Kanada helgina 26.-27. júní. Ban Ki-moon situr fundina en þar verður ofarlega á dagskrá hvernig gera skal grein fyrir nýtingu þróunaraðstoðar.   

Í hnotskurn: Þúsaldarmarkmiðin um þróun eru:

1. Eyða fátækt og hungri

2. Tryggja að öll börn njóti grunnskólamenntunar

3. Vinna að jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt kvenna

4. Lækka dánartíðni barna

5. Vinna að bættu heilsufari kvenna

6. Berjast gegn alnæmi, malaríu og öðrum sjúkdómum sem ógna mannkyninu

7. Vinna að sjálfbærri þróun

8. Styrkja hnattræna samvinnu um þróun

Sjá nánar: www.2015.is