Nýr Flóttamannastjóri tekur við

0
458
Grandi

Grandi

5.janúar 2016. Filippo Grandi frá Ítalíu hefur tekið við stöðu Flóttamannastjóra Sameinuðu þjóðanna af António Guterres. Grandi hefur verið skipaður í stöðuna til fimm ára en forveri hans Guterres hefur gegnt stöðunni í áratug.

Óhætt er að segja að Grandi taki við embætti forstjóra Flóttamannahjálparinnar (UNHCR) á umbrotatímum enda hafa sjaldan eða aldrei fleiri flúið heimili sín og heimalönd og á síðasta ári. Skemmst er að minnast að meir en ein milljón flóttamanna og farandfólks hélt yfir Miðjarðarhafið til Evrópu á síðasta ári.

„Flóttamannahjálpin glímir við erfið verkefni“ sagði Grandi þegar hann kom til starfa í höfðustöðvum UNHCR í Genf. „Saman fara fjöldi átaka sem eiga sér stað samtímis og hafa hrundið af stað flóttamannastraumi, á sama tíma og stórt bil er á milli fjárþarfar og fjármögnunar, auk þess sem útlendingahatur býður hættunni heim. Það eru miklar áskoranir framundan, en ég vona að við getum veitt alþjóðlega vernd og bætt lífsskylirði milljóna flóttamanna, uppflosnaðs fólks innanlands og ríkisfangslausra.“

Grandi sem er 58 ára gamall Ítali, hefur unnið á alþjóðavettvangi í meir en 30 ár, þar af 27 ár hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann var forstjóri Palestínuhjálparinnar (UNRWA) sem sinnir flóttamönnum frá Palestínu en vann áður hjá Flóttamannahjálpinni sem hann mun stýra næstu fimm árin.