Nýr forseti Allsherjarþings segir lýðræðisvæðingu SÞ verða í brennidepli

0
472

 Miguel D’Escoto Brockmann, forseti sextugasta og þriðja Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna hvatti til lýðræðisvæðingar Sameinuðu þjóðanna þegar hann setti þingið í dag.
D’Escoto Brockmann, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra Nikaragva, hét því í opnunarræðu sinni að hann myndi sem forseti þingsins beita sér fyrir málstað snauðustu jarðarbúa.
 “Ég geri mér fulla grein fyrir þeim vonum sem örsnauðustu íbúar jarðar binda við Sameinuðu þjóðirnar um að tryggja frið, öryggi, rétt þeirra til lífs og þróunar,” sagði hann. “Við megum ekki bregðast þeim.”


Miguel d’Escoto Brockmann (annar frá vinstri), forseti sextugasta og þriðja Allsherjarþingsins tekur við fundarhamrinum af forvera sínum Srgjan Kerim og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri og Muhammad Shaaban, aðstoðarframkvæmdastjóri klappa þeim lof í lófa. 

 D´Escoto sagðist taka að sér embættið á viðsjárverðum tímum og nefndi aukið hungur og fátækt, afleiðingar loftslagsbreytinga og fleira. 
“Höfuðverkefni þessa þings verður að lýðræðisvæða Sameinuðu þjóðirnar. Með því móti munum við tryggja stöðu samtakanna sem mikilvægra og ómissandi samtaka í þeirri viðleitni að tryggja frið og öryggi heimsins eins og jarðarbúa krefjast af okkur.”
Forsetinn sagði að fundur háttsettra forystumanna yrði haldinn á næsta ári um eflingu lýðræðis innan SÞ. Fundurinn yrði þrískiptur og yrðu málefni Bretton Woods stofnana, Allsherjarþingsins og Öryggisráðsins rædd sitt í hverju lagi.  Almennar umræður með þátttöku þjóðhöfðingja og forystumanna ríkisstjórna frá tugum ríkja hefst 23. september og lýkur 1. október.

Samkvæmt óskrifaðri reglu flytur forseti Brasilíu fyrsta ávarpið en því næst Bandaríkjaforseti. Þjóðhöfðingjar tala fyrstir en því næst forystumenn ríkisstjórna og loks utanríkisráðherrar.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands ávarpar Allsherjarþingið síðdegis 26. september á undan fulltrúa Fiji-eyja en á eftir fulltrúa Barbados.
Fjölmargir atburðir rúmast innan vébanda Allsherjarþingsins. 22. september áður en almannar umræður hefjast verður sérstakur fundur háttsettra manna um þróunarmál í Afríku. 25. september boða framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og forseti Allsherjarþingsins til leiðtogafundar um stöðu Þúsaldarmarkmiðanna um þróun.
Að loknum almennu umræðunum verður fjallað um svokallaða Almaty aðgerðaáætlun frá 2003 um sérstakar aðgerðir til að aðstoða landlukt ríki og önnur sem eiga við erfiðleika að stríða vegna landfræðilegrar legu.
Að auki verður sérstar fundur ráðstefnunnar um fjármögnun þróunar þar sem farið verður yfir hvernig gengur að framfylgja Monterrey samþykktinni. Sá fundur stendur yfir frá 29. nóvember til 2. desember í Doha í Katar.
10. desember mun Allsherjarþingið halda sérstakan fund sem verður helgaður sextugsafmælis Mannréttindayfirlýsingarinnar.

Helstu málefni sem verða til umræðu í vetur á Allsherjarþinginu eru:
• Lýðræðisvæðing Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal mat á starfi Öryggisráðsins og Bretton Woods stofnananna auk efling Allsherjarþingsins.
 
• Fjármögnun þróunar til að uppræta hungur, fátækt tryggja aðgang að hreina vatni og lámarks heilsugæslu.
• Loftslagsbreytingar.
• Leiðir til að ná settum markmiðum áratugar Sameinuðu þjóðanna “Vatn fyrir líf” (2005-2015)
• Framkvæmd áætlunar um baráttu gegn hryðjuverkum með fullri virðingu fytrir mannréttindum.
• Alþjóðleg friðar og öryggismál, þar á meðal afvopnunarmál og stjórn notkunar kjarnorku.
• Allsherjarþingið mun einnig fara í saumana á þessum málefnum útfrá kynjasjónarmiðum og mun einig gefa gaum málefnum sem tengjast samvirkni stofnana SÞ, sjálfbærri þróun og HIV/Alnæmi.