Öfgar í veðurfari á síðasta áratug vegna hlýnunar jarðar

0
530

2013 7 8 WMOnsp 47 report

8.7.2013 – Staðfest er í nýrri skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar(World Meteorological Organization WMO) að á síðasta áratug, 2001-2010 hafi heimurinn upplifað fordæmalausar öfgar í veðurfari og þær mestu frá því mælingar hófust árið 1850. Þá sýnir skýrslan einnig að hnattræn hlýnum mælist hækkandi á sama tímabili.

Síðastliðinn áratugur var sá heitasti bæði á norður- og suðurhveli jarðar og á það jafnt við um yfirborðshitastig á landi og í sjó. Þá voru suðrænir fellibyljir aldrei fleiri í norðurhluta Atlantshafs allt frá upphafi mælinga á þeim árið 1855 ásamt því að jöklar og ísbreiður hopuðu meir en nokkru sinni fyrr. Yfir 370.000 manns misstu lífið á þessum áratug vegna öfga í veðurfari þ.e. í hitabylgjum, ofsakuldum, þurrkum, flóðum og öðru ofsaveðri, um er að ræða 20% aukningu miðað við mælingar frá árunum 1991-2000.

Í þessu samhengi var árið 2010 sögulegt og hafði hlýnun jarðar aldrei verið jafn mikil. Það ár létust 55.000 manns vegna hitabylgju í Rússlandi og sama ár voru alvarlegustu flóðin sem um getur í Pakistan þar sem 2.000 manns týndu lífi.

Þrátt fyrir fjölgun íbúa á hættusvæðum hefur þekking og tækni til að bregðast við áföllum tengdum öfgum í veðurfari skilað góðum árangri og var mælanleg lækkun dauðsfalla vegna ofsaveðurs/storma á tímabilinu 16%. Einnig lækkaði dánartíðni vegna flóða um 43%. Þeim árangri má fyrst og fremst þakka forvörnum, betri viðvörunarkerfum og auknum viðbúnaði.

“Það þarf að skoða að minnsta kosti einn áratug aftur í tímann til að fá marktækar niðurstöður og raunhæfar tölulegar upplýsingar til að meta áhrif loftslagsbreytinga” sagði Michel Jarraud framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar(WMO). “Skýrslan gefur skýr skilaboð, það er mælanleg hlýnun jarðar allt frá árunum 1971 til 2010 og sér í lagi gríðarleg hækkun hnattrænnar hlýnunar milli áratuganna 1991-2000 annars vegar og 2001-2010 hins vegar. Losun gróðurhúsalofttegunda eru að breyta loftslagi okkar með alvarlegum afleiðingum bæði á landi og á hafi úti – hnattræn hlýnun er staðreynd”.