Ólympíuleikar: Ban fordæmir árásir á hinsegin fólk

0
436

 Ban Sochi

6.febrúar 2014. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fordæmdi í dag árásir á hinsegin fólk í ræðu í tilefni Ólympíuleikanna.

  Í ræðu á þingi Alþjóða Ólympíunefndarinnar í Sochi í Rússlandi í dag. minnti Ban á að í desember hefði þema Mannréttindadagsins verið “Íþróttir gegn hommahatri.”

“Við verðum öll að láta raddir okkar heyrast og mótmæla árásum á lesbíur, homma, tvíkynhneigða, millikynfólk og transfólk. Við verðum að snúast gegn handtökum, fangelsunum og hömlum sem fela í sér mismunun sem þau sæta,“ sagði Ban í ræðu sinni.

Alþjóða Ólympíunefndin þingar í Sochi þar sem Vetrarólympíuleikarnir hefjast á morgun. Ban Ki-moon mun ræða við þjóðarleiðtoga sem sækja leikanna en ýmsir vestrænir leiðtogar sitja heima og nefna sumir svokölluð „hommaáróðurslög“ í Rússlandi sem ástæðu.

Ban hvatti þjóðir heims til að leggja niður vopn á meðan Ólympíuleikarnir standa yfir, að hætti Grikkja hinna fornu. “Íþróttamennirnir keppa undir fánum ólíkra þjóða, en þeir fylkja sér allir undir merki jafnréttis, heiðarleika, skilnings og gagnkvæmrar virðingar,” sagði Ban. 

“Ef þeir geta þetta í keppni á íþróttaleikvöngum Sochi, geta herstjórar gert slíkt hið sama á vígvöllum heimsins. Ég hvet stríðandi fylkingar, sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, til þess að virða Ólympíufriðinn og þá ekki síst í Sýrlandi, Suður-Súdan og Mið-Afríkulýðveldinu.”
Ólympíufriðurinn hefst viku fyrir Sochi-leikana og stendur yfir þar til viku eftir að Ólympíuleikar fatlaðra lýkur 16.mars. Ólympíufriðurinn byggir á fornri grískri hefð, ekecheiria, sem rekja má til áttunda aldar fyrir Krist.

Mynd: Ban ræðir við Thomas Bach, forseta Alþjóða Ólympíunefndarinnar í Sochi. SÞ-mynd/Paulo Filgueiras.