Páfinn: Að sóa mat er eins og að stela frá hungruðum

0
457
pope

pope

26. nóvember 2014. Frans páfi gagnrýndi sóun matvæla harðlega i í umtalaðri ræðu sinni á Evrópuþinginu í gær.  

„Það er óþolandi að milljónir manna um allan heim deyi úr hungri á sama tíma og milljónir tonna af matvælum séu teknar ósnertar af borðum okkar og endi í ruslinu.“

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Páfinn beinir spjótum sínum að sóun matvæla frá því hann tók við embætti á síðasta ári.  Hann hefur ítrekað komið inn á þetta efni, en fjallaði ítarlega um þetta efni í vikulegri áheyrn í Péturskirkjunni í tilefni af Umhverfisdegi Sameinuðu þjóðanna (5.júní) sem var helgaður baráttunni gegn sóun matvæla 2013.

„Við ættum öll að hafa hugfast, að það að henda mat er eins og að stela af borði hinna fátæku, hinna hungruðu! Ég hvet alla til þess að brjóta til mergjar þann vanda sem felst í því að mat er hent og reyna að finna leiðir til þess að takast af alvöru á við þetta með það fyrir augum að þetta komi þurfandi fólki til góða.“

Páfinn bætti við: „Afar okkar og ömmur forðuðust í lengstu lög að henda mat. Neysluhyggjan hefur hins vegar vanið okkur á að fleygja mat og við sjáum ekki lengur raunverulegt gildi hans.“

Sameinuðu þjóðirnar telja að 30% matvæla rati ekki rétta leið til neyslu og sé einfaldlega hent. Sem dæmi má nefna er talið að níu prósent af mat gesta bandarískra veitingastaða endi í ruslatunnunni, einfaldlega vegna þess að skammtar af öllu frá ostborgurum til svaladrykkja eru of stórir.

Frans páfi  telur að á okkar dögum ríki sóunarmenning“ og segir að sá „ósiður“ að sóa sé enn hörmulegri sé litið til þess að 870 milljónir manna fylli flokk hungraðra í heiminum og tveir milljarðar stríði við vannæringu að einhverju leyti.

Sjá ræðu páfans í Evrópuþinginu í heild sinni hér.
Sjá ræðu páfans á Alþjóða umhverfisdeginum 2013 hér.   

Mynd: Þingmenn fagna Frans páfa eftir fjörutíu mínútna langa ræðu hans í gær 25. nóvember. Mynd: Evrópuþingið  © EP