Reynt að blása lífi í viðræður um V-Sahara

0
464

Sahara

5. febrúar 2013. Sérstakur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum Vestur-Sahara hefur átt viðræður við stjórnir Bandaríkjanna og Rússlands um framtíð landsvæðisins.

Viðræðurnar miða að því að undirbúa næstu samningaviðræður um framtíð Vestur-Sahara sem eiga að hefjast í mars.
 
Sameinuðu þjóðirnar hafa reynt að leita lausnar á málefnum Vestur-Sahara frá því árið 1976 þegar átök brutust út á milli Marokkó og Frente Polisario, sjálfstæðishreyfingar íbúanna eftir að nýlendustjórn Spánar lauk.
 Sendimaðurinn, Christopher Ross hefur hitt háttsetta bandaríska embættismenn í utnaríkisráðuneytinu að málum og heldur því næst til Moskvu auk þess að ráða ráðum sínum við Þjóðverja og Svisslendinga í sömu ferð til meginlands Evrópu. Þessi fundir eru til undirbúnings frekara samráði við svokallaðan Vinahóp Vestur-Sahara.
Auk Bandaríkjamanna og Rússa, skipa hann Frakkar, Spánverjar og Bretar.

 

 “Þetta samráð miðar að því að skapa alþjóðlegan stuðning við viðræðurnar um Vestur-Sahara sem deiluaðilar og nágrannaríki taka þátt í,” sagði Eduardo Del Buey, talsmaður Sameinuðu þjóðanna.

Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna, MINURSO, hefur verið til staðar frá því 1991. Samkomulag hafði tekist um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfsákvörðunarrétt íbúanna en Marokkó sem lagði landið undir sig eftir brottför nýlendustjórnar Spánar hefur enn ekki fallist á að halda hana.

Umboð MINURSO var framlengt um tólf mánuði í apríl á síðasta ári samhljóða. Engu að síður lét fulltrúi Suður-Afríku í ljós áhyggjur af því að ekki væri tekið á mannréttindamálum, sérstaklega í ljosi þess að Öryggisráðið hefði tekið djörf skref í þessum málaflokki að undanförnu ekki síst í norður Afríku og Mið-Austurlöndum. “Þessi þróun heldur áfram og grefur undan starfi sveitarinnar,” varaði hann við.

Mynd: Stúlkur haldast í hendur í Awsard flóttamannabúðunum. 

SÞ/Evan Schneider