Á Alþjóðlegum degi kvenna 8.mars er ástæða til að staldra við og líta yfir farinn veg og þann árangur sem hefur náðst og hvetja til breytinga. Þá er ekki síður ástæða til að fagna hugrekki og ákveðni venjulegra kvenna sem hafa leikið einstakt hlutverk í sögu landa sinna og samfélaga.
Í ár er þema Alþjóðlega kvennadagsins: „Forystukonur: framtíð jafnréttis í heimi COVID-19”. Þá fögnum við hugrakkri baráttu kvenna og stúlkna um allan heim við að skapa framtíð i anda jafnréttis og endurreisnar eftir COVID-19. Jafnframt er ástæða til að benda á það bil sem þarf að brúa.
Konuandlit COVID-19
Heimsfaraldurinn hefur haft neikvæð áhrif á konur og stúlkur um allan heim.
„Faraldurinn hefur aukið á þrálátan og djúpstæðan ójöfnuð sem konur og stúlkur glíma við. Hann hefur þurrkað út árangur sem náðst hefur á mörgum árum í átt til jafnréttis kynjanna,” skrifar António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í grein sem birtist í Morgunblaðinu og fjölda dagblaða um allan heim í dag.
„Ógreidd umönnun hefur aukist verulega vegna fyrirskipana um að halda sig heima og lokun skóla og barnagæslu. Milljónir stúlkna munu kannski aldrei snúa aftur í skóla.”
Konur eru meirihluta framlínustarfsmanna og margar þeirra eru af jaðarsettum kynþáttum og uppruna. Konum er líka hættar við að missa vinnuna. Um allan heim hafa konur mátt sæta auknu heimilisofbeldi, þurft að taka á sig ógreidd umönnunarstörf, misst vinnu eða orðið fátækt að bráð. Þótt konur séu meirihluti þeirra sem gegna framlínustörfum, veljast þær síður en karlar til að taka stefnumótandi ákvarðanir varðandi COVID-19.
„Faraldurinn hefur verið olía á eld samhliða faraldurs kynbundins ofbeldis. Mikill vöxtur hefur hlaupið í heimilisofbeldi, mansal, kynferðislega minsotkun og barnahjónabönd,” skrifar Guterres.„Segja má að COVID-19 kreppan hafi konuandlit.
Þar sem konur eru í forystu
Þótt faraldurinn hafi haft í för með sér margar slæmar afleiðingar fyrir konur, hefur hann á hinn bóginn sýnt hversu konur eru megnugar þar sem þær veljast til forystu. Konur stýra nú ríkisstjórnum í löndum á borð við Danmörku, Eþíópíu, Finnland, Nýja Sjáland, Slóvakíu og Þýskaland að Íslandi ógleymdu. Hvarvetna hafa þær uppskorið lof og viðurkenningu fyrir skjóta skilvirka og afdráttarlausa ákvarðanatöku um andsvör við COVID-19.
„Síðastliðið ár hefur tíðni smita verið minni í ríkjum sem stýrt er af konum og þau eru oft betur í stakk búin til að takast á við endurreisnarstarf. Kvennasamtök hafa víða hlaupið í skarðið þar sem skortur hefur verið á þýðingarmikilli þjónustu og upplýsingum,” skrifar aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
„Hvarvetna þar sem konur hafa stýrt ríkisstjórnum hefur verið fjárfest meira í félagslegri vernd og baráttu gegn fátækt. Þar sem konur sitja á þingi, hafa ríki samþykkt ákveðnari aðgerðir í loftslagmálum. Þar sem konur eiga sæti við samningaborðið í friðarviðræðum er friður varanlegri.“
En þrátt fyrir þetta eru konur einungis oddvitar ríkja og ríkisstjórna í 20 löndum í heiminum. Konur, sérstaklega yngri konur, eru hins vegar forystusauðir í ýmiss konar hreyfingum á netinu og á götum úti í þágu félagslegs réttlætis, jafnréttis og baráttu gegn loftslagsbreytingum um allan heim. Engu að síður eru konur yngri en þrítugt aðeins 1% af öllum þingmönnum í heiminum.
„Öll slík útilokun felur í sér neyðarástand. Þörf er á alheims-átaki til að koma konum í forystu og tryggja jafna þátttöku. Og það er ljóst að slíkt átak kæmi öllum til góða,” segir oddviti Sameinuðu þjóðanna.
Jafnrétti fyrir 2030
Eitt Heimsmarkmiðanna um Sjálfbæra þróun, númer fimm í röðinni, beinist sérstaklega að jafnfrétti kynjanna. Þótt umtalsverður árangur hafi náðst, getur ekkert ríki státað af fullkomnu jafnrétti kynjanna.
Á Alþjóðlega kvennadaginn er fylkt liði um slagorðið „Jafnréttiskynslóð”. Undanfarna hálfa öld hafa lagalegar hindranir komið í veg fyrir að 2.7 milljarðar kvenna hafi sama aðgang að störfum og karlar. Innan við 25% þingmanna í heiminum voru konur árið 2019. Þriðja hver kona sætir kynferðislegu ofbeldi á æfiskeiði sínu.
Þrátt fyrir þetta er Guterres aðalframkvæmdastjóri bjartsýnn á Alþjóðlega kvennadaginn. „Veröldin hefur tækifæri til að snúa baki við kynslóðagamalli, djúpstæðri og kerfisbundinni mismunun. Það er kominn tími til að byggja upp framtíð á grunni jafnréttis.”