Sameinuðu þjóðirnar ekki á förum frá Afganistan

0
709
Afganistan
Mynd: UNAMA

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir því að þær muni halda áfram starfi sínu í Afganistan eftir valdatöku Talibana. Samtökin eru ekki á förum frá landinu. Þær munu halda áfram hlutlausu hjálparstarfi sínu, styðja viðleitni til að koma á friði og stöðugleika efla mannréttindi og virðingu allra Afgana. Brýnt er að koma mannúðaraðstoð til skila til milljóna nauðstaddra landsmanna.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sérstaklega áhyggjur af mannréttindabrotum og framtíð afganskra kvenna og stúlkna.

Talið er að 18 milljónir manna í landinu þurfi á aðstoð að halda. Búist er við að þriðja hvert barn í Afganistan líði fyrir vannæringu á þessu ári, að sögn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Afganistan
Kona og barni í Roghani flóttamannabúðum í Chaman við landamæri Pakistans. UN Photo

„Sumt starfsfólk Sameinuðu þjóðanna, sem getur unnið annars staðar frá, hefur verið flutt annað. Meirihluti starfsfólks sem vinnur að mannúðarmálum heldur áfram starfi sínu í landinu. Grundvallarsjónarmið okkar sem fyrr eru mannúð, hlutleysi og sjálfstæði,“ sagði Ramiz Alakbarov staðgengill sérstaks erindreka aðalfrmkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Afganistan í yfirlýsingu. 

„Samfélag mannúðarsamtaka, Sameinuðu þjóðirnar og almannasamtök, eru ekki á förum og halda áfram að aðstoða afgönsku þjóðina. Þótt ástandið sé verulega margslungið er engan bilbug að finna á hjálparsamtökum og stofnunum. Þær eru staðráðnar í að styðja við bakið á berskjölduðu fólki í Afganistan sem aldrei hefur haft meiri þörf fyrir okkur en nú,“ bætti hann við.

Samræmingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (OCHA) vinnur hörðum höndum að því að kanna þarfir nauðstaddra. Fyrr á þessu ári fór OCHA og samstarfsaðilar hennar fram á 1.3 milljarð Bandaríkjadala til að sinna þörfum nauðstaddra Afgana. Aðeins tókst að afla 40% þess fjár.

Flóttamenn og uppflosnaðir innanlands 

Afganistan
Móðir og börn hennar sem flúðu átök í Lashkargah og leituðu skjóls í Kandahar í suður-Afganistan.Mynd: © UNICEF Afghanistan.

UNHCR, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur gefið út álit þar sem farið er fram á að hætt sé að flytja Afgani aftur til heimalands síns. Þetta á einnig við hælisleitendur sem hafa ekki fengið hæli.

Flóttamannahjálpin hefur fagnað aðgerðum margra ríkja sem hafa stöðvað brottrekstur hælisleitenda sem hafa ekki fengið alþjóðlega vernd.

Þessa stundina er fjöldi Afgana sem leitað hefur hælis í nágrannalöndum tiltölulega lítill, að sögn Shabia Mantoo talskonu UNHCR. Ástandið innanlands er alvarlegt þótt fólk streymi ekki úr landi.

„Hundruð þúsunda hafa flúið heimili sín. 550 þúsund hafa flosnað upp og eru á vergangi innan landamæra Afganistan,“ sagði Mantoo á blaðamannafundi. „Meirihluti þeirra sem flúið hafa að heiman undanfarnar vikur eru konur og börn og 80% þeirra sem hafa farið á vergangi síðustu daga.“

Hvatt til stillingar

Afganistan
António Guterres á fundi Öryggisráðsins á mánudag. UN Photo Evan Schneider

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til alþjóðlegrar samstöðu í málefnum Afganistan á fundi Öryggisráðs samtakanna á mánudag.

Hann hvatti til einingar ráðsins og að tryggt væri að mannréttindi væru virt, mannnúðarstarf héldi áfram og komið í veg fyrir að landið yrði á ný griðastaður hryðjuverkamanna.

Guterres sagði að næstu dagar væru þýðingarmiklir og hvatti „alla aðila, sérstaklega Talibana, til að sýna ýtrustu stillingu til þess að vernda mannslíf og tryggja að mannúðaraðstoð berist nauðstöddum.“

Öryggisráðið gaf út yfirlýsingu þar sem hvatt er til að sverðin verði slíðruð og nýrri ríkisstjórn komið á fót með samningaviðræðum. Ríkisstjórninni beri að vera sameinuð, með víðtækri þátttöku þar á meðal kvenna.

 Virðing fyrir mannréttindum og réttindum kvenna

 Aðalframkvæmdastjórinn benti sérstaklega á nauðsyn þess að vernda óbreytta borgara og leyfa flutning hjálpargagna. Hann hvatt ríki til þess að taka við afgönskum flóttamönnum og hætta brottvísunum. „Nú er tíminn til að standa saman,“ sagði hann.

Yfirmaður Sameinuðu þjóðanna hvatti alþjóða samfélagið til að tala „einni röddu“, að tryggja virðingu mannréttinda og lýsti sérstökum áhyggjum af vaxandi ofbeldi gagnvart konum og stúlkum. „Það er brýnt að réttindi kvenna og stúlkna í Afganistan sem tryggð hafa verið með mikilli baráttu, séu virt.“

„Þær líta til alþjóða samfélagsins eftir stuðningi; sama alþjóðlega samfélagsins sem sannfærði þær um að tækifærum þeirra myndi fjölga, frelsi aukast og réttindi þeirra tryggð.“

15 fastafulltrúar Öryggisráðsins lýstu verulegum áhyggjum af fréttum af alvarlegum brotum á alþjððlegum mannréttindalögum og mannréttindabrotum og lögðu áherslu á að láta hina seku sæta ábyrgð.

Sjá einnig fyrri greinar  hér og hér