Sameinuðu þjóðirnar vara við að hætta stuðningi við Afganistan

0
276

Afganistan. Jafnréttismál. Vara-aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segist andsnúin því að aðstoð við Afganistan verði skorin niður vegna afstöðu Talíbana til kvenna og stúlkna.

 Amina Mohammed, næstæðsti embættismaður samtakanna og Sima Bahous forstjóri Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Women) réðu ráðum sínum fyrr í vikunni með forsvarsmönnum Evrópusambandsins í Brussel. Þær höfðu nýlokið fjögurra daga heimsókn til Afganistans.

Þar ræddu þær við leiðtoga Talibana, de facto, stjórnendur landsins og ítrekuðu samstöðu Sameinuðu þjóðanna með afgönsku þjóðinni.

Til varnar réttindum kvenna og stúlkna

Á meðan á dvöl þeirra stóð í Brussel ræddu þessar tvær æðstu konur í forystusveit Sameinuðu þjóðanna við blaðamenn í húsakynnum UNRIC, Upplýsingaskrifstofu samtakanna í Vestur-Evrópu.

„Ég tel að það væri ekki rétt ákvörðun að stöðva fjármögnun mannúðaraðstoðar. Milljónir myndu líða fyrir það og okkar starf er að standa vörð um og aðstoða konur og stúlkur í Afganistan. Ég myndi ekki vilja stuðla að því að Talíbanar næðu árangri sínum og þrengdu enn frekar að þeim en raunin er í dag. Slíkt myndi kosta mannslíf,” sagði Amina Mohammed.

Á fundum sínum með de facto valdhöfum Afganistans, lýsti sendinefndin áhyggjum sínum af nýlegu banni við störfum kvenna fyrir óháð hjálparsamtök.

Tilskipun um slíkt fylgdi í kjölfar banni við námi kvenna við háskóla og framhaldsskóla. Þar að auki hefur konum verið meinaður aðgangur að flestum opinberum stöðum og þátttöku í atvinnulífi, auk takmarkana á ferðafrelsi.

Amina Mohammed (í miðju, vinstra megin) á fundi með utanríkisráðherra Talibana í Afganistan.
Amina Mohammed (í miðju, vinstra megin) á fundi með utanríkisráðherra Talibana í Afganistan. Mynd: Mohammad Akram Darwish/UN Photo

„Við skulum hafa í huga að frá því þeir snéru aftur, hafa þeir aldrei afturkallað tilskipanir. Þeir hafa gert undantekningar og stundum hafa þær útvatnað tilskipanirnar,” benti Amina Mohammed á. „Við  vonumst til að svo margar undantekningar verði gerðar að þær dragi úr skaðanum. Við vonum að konur og stúlkur geti sesta á skólabekk að nýju og snúið aftur á vinnumarkaðinn.”

Afganistan
Amina Mohammed og Sima Bahous á fundi með blaðamönnum í skrifstofum UNRIC í Brussel.

„Við verðum að þræða einstígi og halda fast í grundvallasjónarmið okkar og ýta eins fast á eftir undantekningum og hægt er, eins og við höfum þegar gert. Við sættum okkur ekki við að karlar leysi eina einustu konu af hólmi. En hins vegar þýðir þetta ekki að hætta beri að sinna nauðsynlegri þjónustu í Afganistan og ég myndi ekki mæla með slíku,” bætti Mohammed við.

Grundvallarþjónusta í hættu

Sima Bahous forstjóri UN Women benti á að torvelt væri að sinna grundvallar þjónustu án kvenkyns starfsliðs.

„Það er ekki auðvelt því konur eru 93% starfsfólks almannasamtaka, sinna þjónustu við konur og stúlkur og samfélög. Ef þær fá ekki að vinna, fá ekki að sinna þjónustu, mun tvennt gerast. Annars vegar að konur fá ekki þjónustu og að í öðru lagi að fjölskyldum er synjað um slíkt,” sagði Bahous.

Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra, þar á meðal innlend og alþjóðleg almannasamtök, veita 25 milljónum Afgana, sem reiða sig á mannúðaraðstoð til að lifa af, aðstoð.

Vara-aðalframkvæmdastjórinn ítrekaði að mannslíf væru í veði.

Amina Mohammed (í miðju, vinstra megin) á fundi með utanríkisráðherra Talibana.
Amina Mohammed ávarpar starfsfólk SÞ í Kabúl. Mynd: UN Photo/Mohammad Akram Darwish

„Raunveruleikinn er ekki sérlega geðslegur en á það ber að líta að við stöndum andspænis því að konur og stúlkur munu deyja, ef við útvegum þeim ekki þessa þjónustu,“ sagði Mohammed. „Það er tuttugu stiga frost og margir vita ekki hvaðan þeir munu fá næstu máltíð. Konur eru oft einar í forsvari fyrir fjölskyldur. Eitt mannslíf, sem tapast, er of mikið. Við verðum að finna leiðir til þess að auka afl alþjóða samfélagsins og efla samstöðu í þessum heimshluta í því skyni að telja Talibana á að endurskoða sumar þessara ákvarðana.“

 Alþjóðleg ráðstefna um konur og stúlkur

Amina Mohammed skýrði frá áætlunum um Alþjóðlega ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um konur og stúlkur í heimi Íslams. Hún er ráðgerð í mars 2023 og er í samvinnu við  UN Women og samtök íslamskra ríkja (OIC).

„Við vonumst til að slík alþjóðleg ráðstefna verði haldin til að greina hvað hægt er að gera betur til að skilja um hvað íslömsk trú snýst og hvernig trúin tryggir rétt kvenna í menntun og á vinnustöðum og takast á við sum þessara mála.“

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna heimsótti Afganistan eftir að hafa ráðfært sig við ráðamenn í Flóaríkjunum og í Asíu. Þannig hitti hún leiðtoga samtaka íslamskra ríkja, hópa afganskra kvenna í Ankara og Islamabad og hóp stjórnarerindreka og sérstakra sendifulltrúa, sem fjalla um Afganistan, en hafa aðsetur í Doha.