Samningmenn í Darfur segja friðarviðleitni halda áfram þótt uppreisnarmenn hafi sniðgengið viðræður í Líbýu

0
428

29. október. Vonir um friðarsamkomulag í Darfur dvínuðu þegar helstu leiðtogar uppreisnarmanna létu ekki sjá sig þegar friðarviðræður hófust í bænum Sirte í Líbýu. Miklar vonir hafa verið bundnar við friðarráðstefnuna sem haldin er að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins. Þeim var í raun frestað á öðrum degi, sunnudaginn 28. október til að fulltrúum uppreisnarmanna gæfist meira tóm til að undirbúa beinar viðræður við ríkisstjórn Súdans.

Sáttasemjarar sögðu að menn myndu ráða ráðum sínum næstu vikurnar en síðan myndu efnislegar viðræður hefjast. “Ferli sem mun leiða til viðræðna er hafið”, sagði Salim Ahmed Salim, erindreki Afríkusambandsins.
Þótt hvorugur leiðtoga andstæðra fylkinga uppreisnarmanna Abdulwahid Elnur né Khalil Ibrahim hefðu látið sjá sig, sögðust sáttasemjarar vongóðir á að fleiri uppreisnarhópar myndu setjast að samningaborðinu innan nokkurra vikna. Réttlætis og jafnréttishreyfingin sem Ibrahim stýrir gæti verið ein þeirra að sögn sáttasemjaranna. 
"Ég visa því á bug að friðarferlið hafi verið rofið. Lestin er lögð af stað í átt til friðar…spurningin er hve margir farþegarnir verða,” sagði Jan Eliasson, erindreki framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. 
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ lét í ljós vonbrigði með dræma þátttöku úr hópi uppreisnarmanna en í ávarpi sem hann sendi friðarráðstefnunni sagði hann að dyrnar stæðu þeim opnar. Ban hvatti deilendur til að lýsa þegar í stað yfir vopnahléi.
Ríkisstjórn Súdans gerði það einhliða en uppreisnarmenn segja þetta áróðursbrellu enda hafi verið gerð loftárás á stöðvar þeirra síðdegis sama dag og vopnahléi var lýst yfir.