Sjóðir flóttamannahjálpar tómir

0
431

Refugees

6. október 2012. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna glímir við “fordæmalausan” vanda á mörgum vígstöðvum í einu og sjóðir hennar eru uppurnir, segir oddviti stofnunarinnar sem biðlar til alþjóðasamfélagsins um aukinn fjárhagslegan stuðning.
Forstjórinn, António Guterres, segir að Flóttamannahjálpin (UNHCR) glími við mikinn flóttamannavanda á fjórum stöðum í einu og verndi og aðstoði 700 þúsund manns sem hafi flúið átök í Sýrlandi, Malí, Súdan og Lýðveldinu Kongó á þessu ári til viðbótar 800 þúsundum sem flosnuðu upp  á síðasta ári. 

 “Staðreyndin er sú að UNHCR hefur í of mörg horn að líta á þessari stundu,” segir Guterres, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. Hann leggur áherslu á að auk þeirra mála sem hafa komið upp á síðustu árum þurfi að fást við langtíma vandamál á borð við málefni einnar milljónir flóttamanna frá Sómalíu sem flúið hafa stríð og þurrka til Kenía, Eþíópíu og Jemen.

Guterres ræddi við fréttamenn í Genf að loknum árlegum stjórnarfundi Flóttamannahjálparinnar þar sem kynnt er og samþykkt áætlun og fjárlög stofnunarinnar.   

“Á þessari stundu glímum við við fjögur meiriháttar vandamál til viðbótar flóttamannastraumi síðasta árs að ógleymdum afleiðingum vandamála sem ekki hefur fundist lausn á allt frá Afganistan og Erítreu til ástandsins í Kólombíu og Myanmar.”

Fulltrúinn hvatti öll ríki til að halda landamærum sínum opnum og veita flóttamönnum fullnægjandi vernd og biðlaði ákaft til ríkja heims um stuðning við UNHCR sem stæði andspænis “dramatískum atburðum.”