Skýrsla Sameinuðu þjóðanna bendir til að pottur sé brotinn í þróunaraðstoð – Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varar við því Þúsaldarmarkmiðin séu í hættu

0
446

Sameinuðu þjóðunum, Genf 2. júlí. Nú þegar tíminn til að uppfylla þúsaldarmarkmiðin um þróun er hálfnaður, hafa þróunarríki og samstarfsríki þeirra náð athyglisverðum árangri á ýmsum sviðum í þeirri viðleitni að frelsa milljónir manna úr viðjum fátæktar.

Hins vegar mun það skipta sköpum um hvort Þúsaldarmarkmiðin nást að þróuð ríki standi við skuldbindingar sínar um aukna þróunaraðstoð. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu um stöðu Þúsaldarmarkmiðanna sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út í dag.
 “Heimurinn vill ekki ný loforð”, segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í formála skýrslunnar. “Það er lífsnauðsynlegt að allir hlutaðeigandi standi fyllilega við þær skuldbindingar sem þeir hafa gengist undir” á þremur leiðtogafundum á Þúsaldarfundinum 2000, Monterrey fundinum um fjármögnun þróunar og Alheimsleiðtogafundinum 2005.
 Í skýrslunni um Þúsaldarmarkmiðin 2007 er bent á að aðeins fimm ríki hafi náð eða farið fram úr því gamla takmarki Sameinuðu þjóðanna að 0.7 prósent þjóðarframleiðslu renni til opinberrar þróunaraðstoðar: Þau eru Danmörk, Holland, Lúxemborg, Noregur og Svíþjóð.
 Í skýrslunni er einnig bent á að opinber þróunaraðstoð í heiminum minnkaði um 5.1 prósent að raunvirði frá 2005 til 2006 og var það í fyrsta skipti frá 1997 sem hún lækkaði á milli ára.
Þetta gerist þrátt fyrir að helstu iðnríki heims hafi heitið því að tvöfalda aðstoð við Afríku fyrir árið 2010 á fundi sínum í Gleneagles 2005.
“Sú staðreynd að engin teljandi aukning hefur orðið á opinberri þróunaraðstoð síðan 2004, gerir það að verkum að jafnvel best stjórnuðu ríkjunum er gert ókleift að ná Þúsaldarmarkmiðunum” skrifar framkvæmastjóri Sameinuðu þjóðanna í formálanum að skýrslunni. “Það er greinilegt af lestri skýrslunnar að það er brýnt að þróunarríki verða að njóta fyrirsjáanlegrar aðstoðar til þess að þau geti skipulagt auknar fjárfestingar á skilvirkan hátt.”
 Í áttunda og síðasta Þúsaldarmarkmiðinu er hvatt til að þróuð ríki og þróunarríki stofni alþjóðlegan félagsskap um þróun, meðal annars til þess að takast sérstaklega á við þarfir minnst þróuðu ríkjanna auk landluktra þróunarríkja og lítilla eyríkja. Þrátt fyrir þetta kemur í ljós í skýrslunni að aðstoð við minnst þróuðu ríkin “stendur í stað síðan 2003.”
 Þegar uppgjöf skulda við Nígeríu hefur verið dregin frá kemur í ljós að þróunaraðstoð við Afríkuríki sunnan Sahara jókst aðeins um 2 prósent á milli 2005 og 2006.
 Í skýrslunni er svo bent á að það bæti ekki úr skák að í öllum heimshlutum hefur fjöldi atvinnulausra ungmenna aukist úr 74 milljónum árið 1996 í 86 milljónir árið 2006. 
 Þar er einnig lýst vonbrigðum þann árangur sem náðst hefur í að uppfylla Þúsaldarmarkmiðið um að þróa “opið, reglubundið, óhlutdrgæt og fyrirsjáanlegt viðskipta og fjármagnskerfi.”
 Framþróun hefur orðið hægari en vonast var til í viðræðuhrinunni sem hófst á fundi í Doha 2001 sem miðaði að því að auka viðskiptatækifæri þróunarríkja. En í skýrslunni er einnig komist að þeirri niðurstöðu að opnun markaða auðugra ríkja gagnast ekki endilega öllum þróunarríkjum, sérstaklega í ljósi skorts á viðeigandi þróunaráætlunum.
 Jákvæðari dæmi eru einnig nefnd í skýrslunni og má þar nefna að skuldabyrði þróunarríkja hefur léttst þökk sé tveimur áætlunum sem þróuð ríki hafa hrundið af stað: annars vegar Frumkvæði um skuldir fátækustu ríkjanna (Highly Indepted Poor Country Initiative) og hins vegar Frumkvæði um fjölþjóðlega skuldauppgjöf (Multilateral Debt Relief Initiative). Báðar þessar áætlanir hafa skipt sköpum í því að létta um allt að 90 prósent skuldabyrði þeirra ríkja sem uppfyllt hafa skilyrði.
 Í skýrslunni er einnig bent á að ný upplýsinga- og samskiptatækni sem er mikilvægur hvati hagvaxtar riður sér hratt til rúms í þróunarríkjum sérstaklega farsímatækni.
 “Árangurinn sem náðst hefur í sumum ríkjum,” segir framkvæmdastjórinn í formála sínum, “sýnir að hraðar og stórstígar framfarír í átt að því að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin eru mögulegar ef saman fara annars vegar öflug forysta ríkisstjórnar, heilbrigð stefnumið og raunhæfar áætlanir um opinberar fjárfestingar og hins vegar nægjanlegur fjárhagslegur og tæknilegur stuðningur alþjóða samfélagsins.”

Sjá nánari upplýsingar og tengliði fyrir fjölmiðla: www.un.org/millenniumgoals