SÞ: ekki nóg að efla björgunarstarf

0
418
Seafaring UNHCR

Seafaring UNHCR

20.apríl 2015. Sameinuðu þjóðirnar hvetja Evrópusambandið til að efla björgunarstarf á Miðjarðarhafinu og hraða aðgerðum til að takast á við mál hælisleitenda.

Allt að sjö hundruð létust þegar bát hvolfdi undan ströndum Líbýu aðfararnótt sunnudags. 

„Þetta er brýn áminning um nauðsyn öflugra leitar- og björgunarðgerða á Miðjarðarhafinu. Aðalframkvæmdastjórinn hvetur aðildarríki Evrópusambandsins og Evrópusambandið sjálft til þess að hraða yfirstandandi viðleitni til að takast á við málefni þeirra sem leita hælis innan landamæra ríkjanna,“ sagði Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu.

Fjöldi þeirra sem flýja stríð og ofsóknir hefur aldrei verið meiri og sífellt fleiri reyna að komast sjóleiðina til Evrópu. Harmleikurinn um helgina er mannskæðasta sjóslys þar sem flóttamenn og farandfólk á í hlut á Miðjarðarhafinu og gerist aðeins nokkrum dögum eftir að annað sjóslys kostaði 400 manns lífið.

“Þetta stórslys staðfestir hversu mikilvægt það er að endurreisa sjóbjörgunarstarf og koma upp sannfærandi löglegum leiðum til að fá hæli í Evrópu,” segir Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, António Guterres. „Annars mun fólk sem leitar öryggis, halda áfram að týna lífi á hafi úti.“
Guterres segir að á sama tíma verði Evrópuríki að koma sér saman um heildstæðar aðgerðir til að glíma við rót vandans og ástæður þess að svo mörgum er stökkt á flótta sem endar með svo voveiflegum hætti.  “Ég vona að Evrópusambandið rísi undir þessari ábyrgð og takist á hendur forystuhlutverk til þess að koma í veg fyrir að slíkir harmleikir endurtaki sig.”

Í yfirlýsingu sinni varaði Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri SÞ, við því að það nægði ekki að efla björgunarstarfið. „Við þurfum að glíma við hvernig við tryggjum rétt sívaxandi fjölda fólks um heim allan sem leitar hælis og þarfnast skjóls og griðastaðar. Á ferðum þeirra sætir fólkið mismunun, ofbeldi og misnotkun og þarf vernd okkar á erfiðustu stundum æfi sinnar.“