SÞ saka Balkanríki um að brjóta alþjóðalög

0
457
image

image

25.febrúar 2016. Hert landamæravarsla á Balkanskaga gæti haft enn meiri flóttamannavanda í för með sér að sögn Flóttamannastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Lögreglustjórar Austurríkis, Króatíu, Makedóníu, Serbíu og Slóveníu hafa komist að samkomulagi um að þrengja túlkun á því hver teljist flóttamaður. Eingöngu þeim sem flýja stríð” verður leyfð landvist, en að sæta ofsóknum” verður ekki tekið gilt sem ástæða. Þetta brýtur í bága við Flóttamannasáttmálann frá 1951, viðauka við hann frá 1967 og fleiri alþjóðleg lög.

Flóttamannastjórinn Filipo Grandi sagði í heimsókn til grísku eyjarinnar Lesvos að aðgerðir ríkjanna fimm gætu skapað enn meiri erfiðleika fyrir Grikki.

Evrópuríki hafa ekki sýnt mikla samstöðu, en hér sýnir Evrópa sína bestu hlið,” sagði Grandi og vísaði til mikils starfs sveitarstjórna, sjálfboðaliða og frjálsra félagasamtaka í þágu flóttamanna í Grikklandi.

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Zeid Ra’ad Al Hussein tekur í sama streng og segir að lokun landamæra í ríkjunum fimm geti haft ófyrirsjáanleglar og alvarlegar afleiðingar fyrir Grikkland og hinn mikla fjölda fólks sem leitað hefur skjóls í landinu.

Ég hvet ríkin fimm, sem undirrituðu samninginn í síðustu viku, til að endurskoða afstöðu lögreglunnar og sjá til þess að hún sé í samræmi við alþjóðalög,”segir Zeid.

27.febrúar verður haldinn evrópskur aðgerðadagur til stuðnings flóttamönnum og farandfólki og er búist við að gripið verði til aðgerða í meir en 70 borgum í rúmlega tuttugu löndum.