Stalín hindraði stofnaðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum

0
772
Ísland 75 ár í SÞ
Fánar Svíþjóðar, Íslands (í miðju) og Afganistans dregnir að húni við bráðabirgðahöfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Flushing Meadows, New York, 19.nóvember 1946.

75 ár eru liðin í dag frá því Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar ári eftir stofnun þeirra. Ísland var ekki á meðal stofnenda Sameinuðu þjóðanna vegna þess Ísland neitaði ganga að því skilyrði að lýsa yfir stríði á hendur svokölluðum möndulveldum.

Allsherjarþingið samþykkti umsókn Íslands um aðild 9. nóvember 1946. Ísland undirritaði síðan yfirlýsingu um að ríkið samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna hinn 19. nóvember sama ár.

Sama dag gengu Svíþjóð og Afganistan í Sameinuðu þjóðirnar og voru þau ásamt Íslandi fyrst á eftir stofnaðildarríkjunum til að fá aðild að samtökunum.

Thor Thors var um árabil fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Við hlið hans á myndinni er Kristján Albertsson.

„Í ræðu sem Thor Thors sendiherra flutti við tilefnið, sagði hann hugsjónina að baki Sameinuðu þjóðunum endurspegla vel gildismat Íslendinga” skrifar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. „Þátttakan í starfi Sameinuðu þjóðanna hefur allar götur síðan verið hornsteinn í utanríkisstefnu okkar. Ísland hefur á þessum 75 árum verið öflugur málsvari sjálfsákvörðunarréttar, virðingar fyrir alþjóðalögum, mannréttinda, jafnréttis, bættra lífsgæða og sjálfbærrar auðlindanýtingar.”

Stríðsyfirlýsing skilyrði fyrir stofnaðild

Í raun voru samtökin í upphafi áframhald á samstarfi bandamannanna, Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjnna og fleiri ríkja, sem háðu stríð gegn Möndulveldunum, Þýskalandi, Ítalíu og Japan. Yfirlýsing hinna Sameinuðu þjóða, alls 26 ríkja, sem gefin var út 1.janúar 1942, er undanfari samtakanna.

Öryggisráðið á fundi 1948. Enn sitja oddvitar Bandamanan í ráðinu.

76 árum eftir stofnun Sameinuðu þjóðanna eru það enn sigurvegararnir í síðari heimstyrjöldinni sem eru fremstir meðal jafningja með því að eiga fast sæti í Öryggisráðinu; Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland.

Aðildin að Sameinuðu þjóðunum var ein fyrsta meiriháttar ákvörðun sem nýstofnað lýðveldi þurfti að taka í utanríkismálum. Ríkisstjórn Íslands var boðið að ganga til liðs við hinar Sameinuðu þjóðir, en böggull fylgdi skammrifi.

Valur Ingimundarson, prófessor rekur aðdragandann að stofnun Sameinuðu þjóðanna í bók sinni Í eldlínu kalda stríðsins og segir að allir íslensku stjórnmálaflokkarnir hafi lagt kapp á að Ísland yrði á meðal stofnríkja Sameinuðu þjóðanna. Það hafi hins vegar komið mörgum í opna skjöldu þegar það spurðist um miðjan febrúar 1945 að bandamenn hefðu ákveðið á Jalta-ráðstefnunni að gera það að skilyrði fyrir þátttöku í samtökunum að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi og Japan fyrir 1.mars 1945.

Stalín á móti stofnaðild Íslands

Oddvitar Bandamanna Winston Churchill, Franklin D. Roosevelt og Jósef Stalín á Jalta-ráðstefnunni.

Á fundi sínum með Churchill, forsætisráðherra Bretlands og Roosevelt, forseta Bandaríkjanna, þverneitaði Jósef Stalín, alvaldur Sovétríkjanna að bjóða öðrum ríkjum að ganga til liðs við bandamenn, en þeim sem þegar hefðu lýst yfir stríði. Ísland taldist til svokallaðra „associated nations“, en það voru ríki sem veitt höfðu Bandamönnum aðstoð án þess að lýsa yfir stríði. Roosevelt vildi að sumum þessara ríkja yrði boðin aðild gegn síðbúinnni stríðsyfirlýsingu og náðist samkomulag um það.

Tekinn var saman listi yfir þessi lönd en Ísland var ekki á listanum. Sjálfur Roosevelt, forseti tók málstað Íslands. „Ég vil gjarna bæta við einu nafni á listann…en það er yngsta lýðveldi jarðarinnar – Ísland.“

Á lokuðum fundi Alþingis í lok febrúar 1945 bar Ólafur Thors, forsætisráðherra sem jafnframt var utanríkisráðherra fram tillögu þar sem hann sagðist telja að Ísland vegna afnota Bandamanna af Íslandi í þágu styrjaldarreksturs „eigi Islendingar sanngirniskröfu” á því að verða á meðal stofnenda Sameinuðu þjóðanna. „Íslendingar geta hinsvegar hvorki sagt öðrum þjóðum stríð á hendur né hð styrjöld af augljósri ástæðu, sem Alþingi felur ríkisstjórninni að gera grein fyrir.“

Sósíalistar lögðu fram eigin tillögu og vildu undirrita sáttmálann, jafnvel þó þeir vildu ekki ganga að skilyrðum um að lýsa yfir stríði heldur væntu þeir að fórnir Íslendinga í stríðinu „…verði þeim metin til jafns við beinar stríðsyfirlýsingar annarra þjóða.“

Tillögur sósíalista og framóknarmanna voru felldar og tillaga ríkisstjórnanna, sem sósíalistar samþykktu loks með semingi, var samþykkt, en Bandamenn skelltu hins vegar skolleyrum við „sanngirniskröfu“ Íslendinga.

Vildu sósíalistar lýsa yfir stríði?

Nýsköpunarstjórnin var við völd þegar Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar.

Samtímaheimildir herma að á lokuðum fundum hafi Sósíalistaflokkurinn viljað lýsa yfir stríði, en þegar niðurstaðan lá fyrir vildu þeir alls ekki kannast við þetta og brugðust raunar ókvæða við, ef þessu var haldið fram.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem birtist í íslenskum blöðum segir að í febrúar hefðu borist skilaboð frá Washington um „eigi þyrfti að segja neinum stríð á hendur og eigi yfirlýsa stríðsástandi, heldur nægði að viðurkenna að hér hefði ríkt ófriðarástand síðan 11. desember 1941, og undirrita téða sáttmála. Myndi þá litið á Island sem eina hinna sameinuðu þjóða…“.

Sovétmenn vildu ekki veita Íslendingum neinn afslátt og Moskvuútvarpið deildi hart á Íslendinga fyrir að hvika hvergi frá hlutleysi. Bretar með stuðningi Bandaríkjamanna reyndu enn að liðka fyrir aðild Íslendinga eftir að Dönum var hleypt inn í samtökin á San Francisco-ráðstefnunni 1945, en Sovétmönnum varð ekki þokað og Ísland varð ekki aðili að Sameinuðu þjóðunum fyrr en haustið 1946.

Áhrif á daglegt líf fólks

„Sameinuðu þjóðirnar hafa bein og óbein áhrif á líf fólks um allan heim,” skrifar Guðlaugur Þór utanríksiráðherra í grein sinni í dag. „Erfiðustu viðfangsefni samtímans verða ekki leyst í einrúmi. Heimsfaraldurinn, hraðfara loftslagsbreytingar og vaxandi spenna í alþjóðasamskiptum undirstrika þá staðreynd. Við þurfum því að tryggja að Sameinuðu þjóðirnar og aðildarríkin 193 hafi getu og þor til til að takast á við þessi viðfangsefni. Það gerist ekki af sjálfu sér.”

Heimildir: Þegar Ísland neitaði að lýsa yfir stríði sem birtist á þessari vefsíðu 27.október 2015, hér.  Sjá einnig Guðlaugur Þór Þórðarson, „Sameinuð með þjóðum”, Fréttablaðið 19.nóvember hér.